Erlent

Hafa rænt úkraínskum börnum í massavís

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínsk börn sem tekin voru frá ríkisstofnun í Donetsk-héraði og flutt til Rússlands.
Úkraínsk börn sem tekin voru frá ríkisstofnun í Donetsk-héraði og flutt til Rússlands. AP

Yfirvöld í Rússlandi hafa rænt fjölmörgum úkraínskum börnum frá yfirráðasvæðum þeirra í Úkraínu og ættleitt þau til fólks í Rússlandi. Meðal annars hefur verið logið að börnunum að úkraínskir foreldrar þeirra vilji þau ekki.

Rússar segja að börnin séu munaðarlaus og hafi í mörgum tilfellum engan til sjá um þau eða þá að ekki sé hægt að ná í viðkomandi forráðamenn. Blaðamenn AP fréttaveitunnar hafa hins vegar fundið vísbendingar um að börnum hafi beinlínis verið rænt.

Í umfangsmikilli grein sem AP birti í gær kemur fram að börn sem hafa misst foreldra sína í árásum Rússa hafi meðal annars verið flutt til Rússlands. Þá hafa börn sem voru vistuð á ríkisstofnunum í Úkraínu verið flutt í massavís til Rússlands þar sem rússneskir foreldrar geta ættleitt þau.

Ráðamenn í Úkraínu segja að mörg þeirra barna sem Rússar hafa tekið ekki hafa verið munaðarlaus heldur hafi þau verið á forræði ríkisins vegna erfiðra aðstæðna foreldra þeirra.

Logið að börnunum í Rússlandi

Í grein AP, sem byggir á gögnum frá bæði Úkraínu og Rússlandi og viðtölum við fjölda fólks í báðum löndum segir einnig að logið hafi verið að börnum um að foreldrar þeirra vildu þau ekki lengur, þau hafi verið notuð við áróður í Rússlandi og gefin rússneskum fjölskyldum.

Hvort sem börn eru munaðarlaus eða ekki, þá er það að ala börn upp í annarri menningu mögulegt ummerki þjóðarmorðs. Þess að verið sé að reyna að þurrka út menningu og einkenni óvinaþjóðar. Saksóknarar sem AP ræddi við segja mögulegt að beintengja þessi mannrán við Vladimír Pútín, forseta Rússlands, sem hefur opinberlega lýst því yfir að hann styðji þessar ættleiðingar.

Jafnvel þó foreldrar þeirra séu látnir þá eiga börn að vera áfram í eigin landi, samkvæmt sérfræðingum.

Þá meina rússnesk lög foreldrum þar í landi að ættleiða börn frá öðrum ríkjum en Pútín skrifaði undir ný lög í maí sem gerðu ættleiðingar barna frá Úkraínu mögulegar. Lögin gerðu sömuleiðis fjölskyldumeðlimum barnanna og yfirvöldum í Úkraínu erfiðara að fá börnin aftur.

Hér að neðan má sjá myndefni frá AP þar sem meðal annars er fjallað um Olgu Lopatkinu og sex börn hennar sem urðu innlyksa í Maríupól, þar sem þau voru í búðum á vegum ríkisins, þegar borgin var umkringd af rússneskum hersveitum.

Börnin voru flutt til Rússlands en eftir fjóra mánuði tókst Olgu að fá þau aftur, með aðstoð hjálparsamtaka.

Segja um átta þúsund börnum hafa verið rænt

Ráðgjafi borgarstjóra Maríupól sagði AP að hundruð barna hefðu verið tekið þaðan. Í flestum tilfellum væri erfitt að segja til um hvort börnin ættu foreldra og aðra forræðismenn eða ekki, eða hvort þeim hefði einfaldlega verið rænt.

Erfitt er að segja til um raunverulegan fjölda barna sem flutt hafa verið til Rússlands. Úkraínumenn segja vitað til þess að nærri því átta þúsund börnum hafi verið rænt en Rússar hafa aldrei gefið upp raunverulegar tölur.

Maria Lvova-Belova, sem heldur utan um réttindi barna í Rússlandi, sagði strax í mars að rúmlega þúsund börn frá Úkraínu hefðu verið flutt til Rússlands og að rúmlega 130 hefðu fengið rússneskan ríkisborgararétt. Hún staðhæfði að börnin þyrftu aðstoð Rússa vegna þeirra áfalla sem þau hefðu orðið fyrir. Þau svæfu illa og grétu eftir að hafa þurft að búa í kjöllurum og sprengjuskýlum, sem þau þurftu að gera vegna árása Rússa.

Fyrr í haust birtust myndbönd af um þrjátíu barna hópi frá Maríupól syngja úkraínska þjóðsönginn, eftir að þau höfðu verið flutt til Rússlands. Lvova-Belova sagði í september gagnrýni þessara barna hefði breyst í ást í garð Rússlands.

Í svari við fyrirspurn AP sem barst frá skrifstofu hennar segir að yfirvöld í Rússlandi væru að „hjálpa börnum“ og tryggja rétt þeirra á að lifa í friði og vera hamingjusöm.


Tengdar fréttir

Flótta­menn frá Kher­son komnir til Rúss­lands

Flóttamenn frá Kherson héraðinu í suðurhluta Úkraínu eru farnir að koma til Rússlands eftir að leppstjórn Rússa í héraðinu hvatti íbúa til að flýja öryggis síns vegna. Sérfræðingar segja þetta benda til þess að heljartak Rússa á héraðinu sé farið að linast.

„Inn­limaði“ bíla­stæði rúss­neska ræðis­mannsins

Finnskur karlmaður tók sig til og „innlimaði“ bílastæði rússneska ræðismannsins í Turku fyrir hönd Úkraínu í gær. Hann segir innlimunina í samræmi við úrslit eins manns þjóðaratkvæðagreiðslu sem hann hélt sjálfur í anda þeirra sem fóru fram á vegum leppstjórna Rússa í Úkraínu nýlega.

„Inn­limaði“ bíla­stæði rúss­neska ræðis­mannsins

Finnskur karlmaður tók sig til og „innlimaði“ bílastæði rússneska ræðismannsins í Turku fyrir hönd Úkraínu í gær. Hann segir innlimunina í samræmi við úrslit eins manns þjóðaratkvæðagreiðslu sem hann hélt sjálfur í anda þeirra sem fóru fram á vegum leppstjórna Rússa í Úkraínu nýlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×