„Við viljum reyna efla fótboltann eins mikið og við getum. Höfum farið af stað með ákveðin verkefni, reynum að fjölga leikjum og jafningjaleikjum þá helst í ákveðnum flokkum. Stefnum að því að gera það í fleiri flokkum,“ sagði Jörundur Áki í viðtali við Stöð 2 og Vísi í dag.
„Fjölga verkefni yngri landsliða er líka eitt af okkar markmiðum. Efla innra starfið okkar. Það er fjölmargt á dagskrá hjá okkur til að efla starfið enn frekar.“
Ákveðnir erfiðleikar hafi fylgt skandalnum sem skók sambandið síðasta haust en Jörundur Áki segir KSÍ og landslið Íslands á góðri vegferð.
„Við höfum verið í mikilli endurnýjun, sérstaklega karla megin. Nú finnst okkur við vera komin á nokkuð rétta braut með það landslið. Fullt af spennandi strákum á leiðinni, U-21 árs landsliðið hefur verið að gera mjög vel.“
„Vissulega vorum við nálægt því að fara á HM [kvenna megin], megum ekki gleyma því. Við erum í ákveðinni vegferð þar líka, að efla okkur kvenna megin. Við erum bara nokkuð brött og lítum björtum augum á framtíðina.“
Er eitthvað sem Jörundi Áka finnst að mætti fara betur hjá KSÍ?
„Ég veit ekki alveg hvort það sé hægt að fara svo djúpt í það en við höfum áhuga á að fara af stað með það sem ég kalla „Knattspyrnu-vísindasvið“ til að efla þann hluta fótboltans: Greiningar og líkamlega þáttinn.“
„Við erum komin í samstarf við Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands hvað þetta varðar. Það eru spennandi tímar inn í þennan hluta fótboltans. Það er eitt af því sem ég mun skoða vel í vetur og vonandi getum við sett þetta á laggirnar,“ sagði Jörundur Áki að endingu.