Forsetinn sagði að stríðið í Úkraínu væri í raun borgarastyrjöld því Rússar og Úkraínumenn væru sama þjóðin. Það væru einungis Rússar sem gætu tryggt fullveldi Úkraínu.
Hér er vert að taka fram að hvar sem rússneskir hermenn hafa stigið niður fæti í Úkraínu, eftir innrásina sem hófst í febrúar, hafa þeir verið sakaðir um ítrekuð og alvarleg ódæði gegn borgurum í Úkraínu og Rússar hafa þar að auki gert markvissar árásir á borgaraleg skotmörk í Úkraínu.
Tugir þúsunda hafa látið lífið vegna innrásarinnar og Rússar eru þar að auki sakaðir um að hafa flutt tugi ef ekki hundruð þúsunda Úkraínumanna nauðungarflutningum og rænt börnum frá Úkraínu.
Úkraínumenn hafna því alfarið að þeir og Rússar séu sama þjóðin.
Í ræðunni hélt Pútín því fram að Vesturlönd þyrftu að ræða við Rússa og önnur heimsveldi um framtíð heimsins, því yfirráð Vesturlanda heyrðu sögunni til og sakaði hann Vesturlönd um rasisma. Hann sakaði Vesturlönd einnig um að vilja gera útaf við Rússland.
Blaðamaður Financial Times fylgdist með ræðu Pútíns í dag.
Putin says Russia told the west: "Let's be friends, have dialogue and strengthen trust and peace." He complains: "We were completely sincere. What did we get in response? A 'no' on every possible area of cooperation."
— max seddon (@maxseddon) October 27, 2022
Pútín sagði einnig að svo lengi sem kjarnorkuvopn væru til, yrði hættan á notkun þeirra til staðar. Rússar ætluðu hins vegar ekki að beita kjarnorkuvopnum því þeir þyrftu ekki á því að halda í Úkraínu.
Forsetinn sagðist ekki hafa vanmetið Úkraínumenn og sagði að hin sértæka hernaðaraðgerð, eins og Rússar kalla innrásina, hefði farið eftir áætlun.
Það er augljóslega rangt enda hafa Rússar misst tugi þúsunda hermanna og hafa þurft að draga verulega úr markmiðum sínum í Úkraínu í nokkrum áföngum. Nú eru hersveitir Rússa í varnarstöðu víðast hvar á víglínunum í Úkraínu.