Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 og sýndar myndir frá Siglufjarðarvegi og Súðavíkurhlíð. Skriðuhætta og snjóflóðahætta, en einnig jarðsig, er það sem Siglfirðingar og Fljótamenn benda á þegar þeir segja brýnt að ný jarðgöng leysi þann veg af hólmi.
Það sama heyrist reglulega frá Vestfjörðum um veginn milli Ísafjarðar og Súðavíkur, eins og fram kom í viðtali fyrir tveimur árum við Hafdísi Gunnarsdóttur, þáverandi formann Fjórðungssambands Vestfirðinga:

„Þessi vegur hérna er stórhættulegur. Fólk er að keyra hérna í skriðum á sumrin og snjóflóðum á veturna, sem varð til þess að fólk flutti. Það voru nokkrar fjölskyldur sem fluttu sem gátu þetta ekki lengur,“ sagði Hafdís.
Súðvíkingar sem rætt var við í frétt Stöðvar 2 fyrir sveitarstjórnarkosningarnar síðastliðið vor nefndu allir jarðgöng sem brýnasta hagsmunamálið.
„Sigurður Ingi veit það. Við erum auðvitað að tala um göng. Það er eina raunhæfa lausnin með þennan veg. Það segir sig bara sjálft,“ sagði Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.

Samgönguáætlun miðar hins vegar við að Fjarðarheiðargöng, milli Seyðisfjarðar og Héraðs, verði næst á dagskrá, verkefni sem mun að óbreyttu taka allt jarðgangafé fram til ársins 2040. Í framhaldinu á síðan að bora milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar um Mjóafjörð, þannig að næstu göng þar á eftir gætu þurft að bíða til ársins 2050.
Mér finnst þetta alveg galið, sagði Bragi Þór, sveitarstjóri Súðavíkur, í dag. Hann sagðist vilja að öryggi vegfarenda yrði efst á blaði við forgangsröðun en ekki þægindagöng eða byggðasjónarmið.

Fyrir norðan er sami tónninn hjá Sigfúsi Inga Sigfússyni, sveitarstjóra Skagafjarðar, varðandi Fljótagöngin:
„Og ef við horfum að þau brýnu öryggissjónarmið, sem eru þar, þá vildi ég ekki vera sá samgönguráðherra eða sú ríkisstjórn sem bæri ábyrgð á því þegar sá vegur fer. Göngin verða að vera komin áður.“
-Þið getið ekkert beðið eftir því að þeir klári öll þessi jarðgöng á Austfjörðum?
„Ég er mikill hagsmunamaður jarðganga um land allt að stytta leiðir á milli byggða. Byggðaáhrifin eru gríðarleg. En Fljótagöngin eru bara svo brýn að það er ekki hægt að bíða í áratugi eftir þeim,“ svarar sveitarstjóri Skagafjarðar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: