Fótbolti

Mané meiddist þrettán dögum fyrir HM: Í myndatöku í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane sést hér sitja þjáður í grasinu eftir að hann meiddist í gær.
Sadio Mane sést hér sitja þjáður í grasinu eftir að hann meiddist í gær. Getty/Stefan Matzke

Sengalska þjóðin er örugglega mjög áhyggjufull eftir fréttir gærkvöldsins frá Þýskalandi. Stærsta stjarna landsliðsins fór þá meiddur af velli eftir aðeins tuttugu mínútna leik.

Sadio Mane meiddist í leik Bayern München og Werder Bremen og það leit út fyrir að hann ætti í vandræðum með hægra hnéð sitt. Það er ljóst að öll meiðsli á þessum tíma setja þátttöku á HM í mikið uppnám.

Hann hafði meitt sig þegar hann hljóp til þess að pressa andstæðing sinn sem var með boltann.

Mane fékk læknisaðstoð og gat síðan gengið sjálfur af velli. Bayern saknaði hans ekki mikið því liðið vann leikinn 6-1 og ná með því fjögurra stiga forskoti á toppnum.

Julian Nagelsmann, þjálfari Bayern, sagði að Mane hefði fengið högg ofarlega sköflunginn en að myndataka myndi skera meira út um alvarleika meiðslanna.

„Ég get ekki sagt neitt fyrir víst en hann fékk högg efst á sköflunginn. Það er mjög óþægilegur staður og sársaukinn leiðir út í vöðvanna. Hann þarf að fara í myndatöku til að fá það á hreint hvort að það sé eitthvað alvarlegt að. Ég vona að það sé ekkert en get ekkert fullyrt neitt um það,“ sagði Julian Nagelsmann.

Á sínu fyrsta tímabili eftir að Bayern keypti Mane frá Liverpool þá hefur hann skorað 9 mörk og gefið 4 stoðsendingar í 20 leikjum í deild og Meistaradeild.

Mane hefur líka spilað alla landsleiki Senegal á þessu ári og skoraði markið sem tryggði Egyptalandi sigur í Afríkukeppninni.

Fyrsti leikur Senegals á HM er á móti Hollandi 21. nóvember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×