Fótbolti

Meiddist eftir þessa tæklingu og missir af HM

Sindri Sverrisson skrifar
Christopher Nkunku fyrir framan Dayot Upamecano í gær, á annarri æfingu Frakka fyrir HM.
Christopher Nkunku fyrir framan Dayot Upamecano í gær, á annarri æfingu Frakka fyrir HM. Getty/Glenn Gervot

Enn kvarnast úr liði Frakka fyrir heimsmeistaramótið sem hefst í Katar á sunnudaginn en sóknarmaðurinn Christopher Nkunku meiddist á æfingu í gær og verður ekki með á mótinu.

Nkunku meiddist eftir að hafa verið að reyna að ná til boltans á undan Eduardo Camavinga, miðjumanni Real Madrid, á æfingu í gær. Atvikið má sjá hér að neðan.

Nkunku, sem er framherji Leipzig, meiddist í vinstra hnénu og eftir röngtenskoðun kom í ljós að meiðslin væru of alvarleg til að hann gæti spilað á HM. 

Franska knattspyrnusambandið hefur sent FIFA gögn vegna meiðslanna og beðið um að hægt verði að kalla á annan leikmann í hans stað. RMC Sport segir að líklega verði það Randal Kolo Muani, framherji Frankfurt. 

Frakkar hafa verið nokkuð óheppnir með meiðsli í aðdraganda HM því miðjuparið N'Golo Kanté og Paul Pogba missir af mótinu vegna meiðsla, og þá varð miðvörðurinn Presnel Kimpembe að draga sig úr hópnum vegna meiðsla.

Nkunku fagnaði 25 ára afmæli sínu á mánudaginn. Hann lék sína fyrstu A-landsleiki fyrir Frakka á þessu ári og var því á leiðinni á sitt fyrsta stórmót áður en hann meiddist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×