Fótbolti

Dan­mörk vill segja sig úr FIFA og KSÍ endur­skoðar stuðning sinn við Infantino

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gianni Infantino, forseti FIFA.
Gianni Infantino, forseti FIFA. Stephen McCarthy/Getty Images

Það gustar verulega um Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA vegna heimsmeistaramótsins sem nú fer fram í Katar. Danmörk íhugar að segja sig úr FIFA og Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður Knattspyrnusambands Íslands segir að sambandið ætli að endurskoða stuðning sinn við Gianni Infantino, forseta FIFA.

Vanda ræddi við Fótbolti.net í dag og staðfesti að KSÍ væri meðal þeirra sambanda sem styddi við bakið á Infantino, eða hefði stutt við bak hans öllu heldur. Það stefnir allt í að Infantino verði endurkjörinn sem forseti FIFA en orðspor hans hefur beðið hnekki vegna atburðanna í kringum HM í Katar.

Infantino var ætlað að þrífa skítinn og taka til hjá FIFA eftir að Sepp Blatter og fleiri voru reknir með skömm. Það virðist ekki hafa gengið eftir og er Infantino fluttur til Katar.

Í viðtali sínu við Fótbolti.net sagði Vanda að KSÍ hefði sent inn bréf til stuðnings Infantino því „ef horft er til lengri tíma þá hefur hann komið ýmsu góðu í verk.“

„Í ljósi síðustu daga og þeirra vonbrigða sem við urðum fyrir með Infantino og FIFA munum við endurskoða þessa ákvörðun. Við höfum einnig komið vonbrigðum okkar skýrt á framfæri við fulltrúa FIFA,“ bætti Vanda við.

Vilja segja sig úr FIFA

Danir hafa gengið skrefinu lengra. Knattspyrnusambandið þar í landi hefur gefið út að það styðji ekki endurkjör Infantino. Þá hefur það einnig sagt að það muni íhuga að segja sig úr FIFA.

„Ákvörðunin hefur ekki verið tekin en við höfum verið þessarar skoðunar í langan tíma. Við höfum verið að ræða við önnur Norðurlönd síðan í ágúst,“ sagði Jakob Jensen, framkvæmdastjóri danska knattspyrnusambandsins.

„Norðurlöndin vinna náið saman og ef Danir bjóða til umræðna, hverjar svo sem þær umræður eru, þá munum við að sjálfsögðu taka þátt og hlusta á þeirra sjónarmið,“ sagði Vanda að endingu.


Tengdar fréttir

Á bak við tjöldin á HM í Katar: Mann­réttinda­brot, í­þrótta­þvottur og spilling

Tuttugasta og annað heimsmeistaramót karla í knattspyrnu, sem hefst í Katar í dag, er ef til vill það umdeildasta sem fram hefur farið hingað til. Mannréttindabrot, dauðsföll verkafólks og spilling er meðal þess sem vakin hefur verið athygli á í tengslum við mótið en umdeild saga þessa móts hófst árið 2010. Ekki í Katar heldur í fundarherbergi í Zurich í Sviss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×