Fótbolti

Þægi­legt hjá Bayern

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Glódís Perla í leik Bayern og Barcelona fyrir ekki svo löngu síðan.
Glódís Perla í leik Bayern og Barcelona fyrir ekki svo löngu síðan. Eric Alonso/Getty Images

Glódís Perla Viggósdóttir lék að venju allan leikinn í hjarta varnar Bayern München þegar liðið lagði Bayer Leverkusen 2-0 í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Bayern vann magnaðan 3-1 sigur á Barcelona í vikunni og sýndi einkar fagmannlega frammistöðu í dag. Hin enska Georgia Stanway kom Bayern yfir eftir hálftíma leik en það reyndist eina mark fyrri hálfleiks.

Sydney Lohmann bætti við öðru markinu eftir klukkustundarleik, staðan orðin 2-0 og reyndust það lokatölur leiksins. Mjög yfirveguð frammistaða hjá Bayern sem heldur þar með pressu á toppliði Wolfsburg.

Sveindís Jane Jónsdóttir og stöllur hennar í meistaraliði Wolfsburg eru á toppi deildarinnar með fullt hús stiga, 27 stig að loknum 9 leikjum. Bayern er í 2. sæti með 25 stig að loknum 10 leikjum.

Glódís Perla lék eins og áður sagði allan leikinn en hún var eini Íslendingurinn í leikmannahópi liðsins að þessu sinni þar sem þær Cecilía Rán Rúnarsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttur voru hvergi sjáanlegar í dag.

Það styttist í að Karólína Lea snúi aftur en á morgun, sunnudag, birtist stutt viðtal við hana hér á Vísi um meiðslin sem hafa aftrað henni undanfarna mánuði og hvenær hún verður klár í slaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×