Fótbolti

Dagný bætti upp fyrir vítaklúður og Sara lagði upp á Ítalíu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir skoraði fyrra mark West Ham í dag.
Dagný Brynjarsdóttir skoraði fyrra mark West Ham í dag. Harriet Lander/Getty Images

Íslenskar landsliðskonur voru áberandi í nokkrum af stærstu deildum Evrópu í knattspyrnu í kvöld. Dagný Brynjarsdóttir skoraði í 0-2 útisigri West Ham í ensku Ofurdeildinni og Sara Björk Gunnarsdóttir lagði upp í 2-4 útisigri Juventus í ítölsku A-deildinni.

Dagný og liðsfélagar hennar í West Ham sóttu Tottenham heim í Lundúnaslag í ensku Ofurdeildinni í knattspyrnu í dag. Dagný fékk gullið tækifæri til að koma gestunum yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar West Ham fékk vítaspyrnu, en skot hennar fram hjá markinu.

Dagný lét það þó ekki á sig fá og bætti upp fyrir vítaklúðrið með marki strax á fjórðu mínútu síðari hálfleiks áður en Hawa Cissoko tryggði liðinu 0-2 sigur með marki á 83. mínútu.

West Ham er nú með 15 stig í fimmta sæti deildarinnar, sex stigum meira en Tottenham. West Ham hefur leikið tíu leiki á tímabilinu, en Tottenham aðeins átta.

Þá lagði Sara Björk Gunnarsdóttir upp fyrsta mark Juventus er liðið vann góðan 2-4 útisigur gegn Roma. Markið skoraði Lineth Beerensteyn á 14. mínútu eftir að heimakonur höfðu tekið forystuna snemma leiks, en Sara Björk þurfti að fara af velli eftir rúmlega háltíma leik vegna meiðsla.

Juventus situr nú í öðru sæti ítölsku deildarinnar með 27 stig eftir 12 leiki, þremur stigum minna en Roma sem trónir á toppnum.

Að lokum lék Sveindís Jane Jónsdóttir rétt tæpan háltíma er Wolfsburg vann öruggan 3-0 sigur gegn Meppen í þýsku deildinni í dag. Wolfsburg er því enn með fullt hús stiga á toppi deildarinnar að tíu umferðum loknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×