Fyrir þá sem misstu af því þá var það nefnilega Birkir Bjarnason sem fékk treyju Lionel Messi eftir leik Íslands og Argentínu á HM í Rússlandi fyrir fjórum árum.

Ísland og Argentína gerðu 1-1 jafntefli í fyrsta leik Íslands á HM en Messi lét Hannes Þór Halldórsson verja frá sér vítaspyrnu í seinni hálfleiknum.
Birkir setti inn mynd á samfélagsmiðla af sér með þessari eftirsóttu treyju. Hún varð honum eflaust enn verðmætari eftir úrslitaleik HM í gær.
Messi tókst ekki að vinna HM 2018 ekki frekar en 2014, 2010 eða 2006.
Hann varð hins vegar loksins heimsmeistari í gær eftir sigur á Frakklandi í vítakeppni.
Messi bauð upp á sjö mörk og þrjár stoðsendingar í sjö leikjum Argentínu á HM og kom með beinum hætti að tíu mörkum alveg eins og Diego Maradona (5 mörk og 5 stoðsendingar) þegar Argentínumenn urðu síðast heimsmeistarar árið 1986.