Fótbolti

Sá fyrir HM-gullið og að hann myndi skora í úrslitaleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Angel Di Maria virðir fyrir sér heimsbikarinn í hópi liðsfélaga sinna.
Angel Di Maria virðir fyrir sér heimsbikarinn í hópi liðsfélaga sinna. Getty/Visionhaus

Argentínski landsliðsmaðurinn Ángel Di María er maður stórleikjanna enda hefur hann skorað í úrslitaleiknum í síðustu þremur stóru titlum Argentínumanna, á Ólympíuleikum, í Suðurameríkukeppni og á heimsmeistaramóti.

Di María var líka viss um að hann myndi skora í úrslitaleiknum á móti Frakklandi eins og kom vel fram í skilaboðum sem hann sendi til konunnar í aðdraganda úrslitaleiksins.

Nú hafa þessi skilaboð leikið út en spænska blaðið Marca komst yfir mynd af skilaboðum Di María til eiginkonu sinnar Jorgelinu.

„Við verðum heimsmeistarar elskan mín. Og ég mun skora mark,“ skrifaði Ángel Di María í skilaboðunum.

Di María kom argentínska liðinu í 2-0 í leiknum eftir að Messi hafði skorað fyrsta markið úr víti sem Di María fiskaði.

Di María fór út af í stöðunni 2-0 en þá fór allt í rugl hjá liðinu og Frakkar jöfnuðu í 2-2. Leikurinn endaði síðan 3-3 eftir framlengingu en Argentína vann að lokum heimsmeistaratitilinn í vítakeppni.

„Njóttu morgundagsins af því að við verðum heimsmeistarar. Við, allir 26 leikmennirnir og fjölskyldur þeirra, eigum skilið að vinna titilinn,“ skrifaði Di María enn fremur.

Argentína vann þarna sinn fyrsta heimsmeistaratitil í 36 ár og mikil fagnaðarlæti hafa staðið yfir í landinu síðan. Fimm milljónir manna fóru út á götu í Buenos Aires til að taka á móti liðsrútunni.

Hún komst síðan ekki nema 6 af 30 kílómetrum og leikmennirnir urðu að flýja í þyrlu þegar ákefðin og æsingurinn varð of mikill í fólkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×