Fótbolti

Segir deilu landsliðsþjálfarans og Reyna-fjölskyldunnar sorglega sápuóperu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gregg Berhalter segir Gio Reyna til.
Gregg Berhalter segir Gio Reyna til. getty/ANP

Deila Greggs Berhalter, þjálfara bandaríska karlalandsliðsins í fótbolta, og fjölskyldu landsliðsmannsins Gio Reyna er sorgleg sápuópera. Þetta segir Heather O'Reilly, fyrrverandi landsliðskona Bandaríkjanna.

Móðir Reynas, Danielle, steig fram á dögunum og viðurkenndi að hafa greint bandaríska knattspyrnusambandinu frá því að Berhalter hafi sparkað í eiginkonu sína 1991, þegar þau voru táningar.

Danielle segist hafa gert þetta því hún hafi verið pirruð vegna ummæla Berhalter um Gio eftir HM í Katar. Þá sagði Berhalter að einn leikmaður liðsins hafi verið nálægt því að vera sendur heim af mótinu þar sem hann hafi hvorki staðist væntingar innan né utan vallar. Þótt Gio hafi ekki verið nafngreindur staðfesti hann það sjálfur í færslu á Instagram daginn eftir. Reyna sagði þá frá því að í Katar hafi hann beðið þjálfarann og liðsfélaga sína afsökunar og verið fyrirgefið.

Berhalter hefur viðurkennt að hafa sparkað í eiginkonu sína en vill halda áfram sem þjálfari bandaríska liðsins sem komst í sextán liða úrslit á HM í Katar og verður á heimavelli á HM eftir þrjú ár.

„Enginn er sigurvegari í svona stöðu,“ sagði O'Reilly um málið á BBC. „Að koma með eitthvað þrjátíu ára gamalt mál upp á yfirborðið er eitthvað annað að mínu mati. Ég legg aldrei blessun mína yfir ofbeldi en þetta var fyrir 31 ári síðan. Þau sættust eftir þetta og hafa átt farsælt hjónaband í aldarfjórðung.“

O'Reilly er afar ósátt við þetta útspil Reyna-fjölskyldunnar. „Ég held að þau sé pirruð yfir því að sonurinn hafi verið ataður auri. En þetta var algjört neðanbeltishögg og andstyggilegt í þokkabót. Þetta er sorglegt og raunar aumkunarverður dagur fyrir bandarískan fótbolta.“

Claudio Reyna og Berhalter hafa þekkst frá því þeir voru krakkar og léku meðal saman í framhaldsskóla og í bandaríska landsliðinu. Þá voru Danielle Reyna og Rosalind Berhalter samherjar í Norður-Karólínu háskólanum í fjögur ár. Tengingin milli fjölskyldnanna er því mjög sterk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×