Innlent

Sagnfræðingar ósáttir við mögulega lokun Borgarskjalasafnsins

Samúel Karl Ólason skrifar
048A2155 (2)
Vísir/Vilhelm

Sagnfræðingar eru ósáttir við að mögulega verði Borgarskjalasafnið lagt niður í núverandi mynd og segja meinlegt að þetta sé gert án samráðs við borgarskjalavörð eða aðra fagmenn. Ekki megi draga úr getu til varðveislu og miðlunar sögunnar og „ekki síst á tímum upplýsingaóreiðu og falsfrétta“.

Borgarskjalasafnið er héraðsskjalasafn Reykvíkinga og geymir gríðarlegt magn upplýsinga, allt frá húsauppdráttum og einkaskjalasöfnum til gamalla einkunnaspjalda og nemendalista úr grunnskólum. Á fundi borgarráðs í fyrradag lagði borgarstjóri til að leggja niður safnið í sparnaðarskyni, en tillögunni var frestað.

Samkvæmt tillögunni á að færa starfsemi safnsins á Þjóðskjalasafnið. Borgarskjalavörður segir hugmyndir um að leggja niður Borgarskjalasafnið metnaðarlausar.

Í yfirlýsingu frá stjórn Sagnfræðingafélags Íslands segir að ætlunin sé ekki að kasta rýrð á Þjóðskjalasafnið en að það yrði afturför ef stærsta sveitarfélag landsins yrði fyrst til að leggja niður eigið skjalasafn og missa þannig mikilvæga starfsemi Borgarskjalasafnsins.

Gæta þurfi þess að söfn og menningarstofnanir á borð við Borgarskjalasafnið lendi ekki undir niðurskurðarhnífnum.

„Þess utan verður ekki séð að verulegir fjármunir sparist við þessa ráðstöfun en héraðsskjalasöfn njóta lögum samkvæmt styrks úr ríkissjóði samkvæmt því sem er ákveðið í fjárlögum hverju sinni,“ segir í yfirlýsingunni.

Stjórn Sagnfræðingafélags Íslands skorar á borgarstjórn að hætta við að leggja Borgarskjalasafnið niður og að efna þess í stað til samráðs um framtíð þess við fagfólk á sviði safnareksturs, skjalavörslu og sagnfræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×