Fótbolti

Dramatískur sigur PSG sem missti tvo menn af velli vegna meiðsla

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Skoraði tvö í dag.
Skoraði tvö í dag. EPA-EFE/MOHAMMED BADRA

Frakklandsmeistarar París Saint-Germain virtust hafa hent frá sér tveggja marka forystu gegn Lille í frönsku úrvalsdeildinni í dag. Leiknum lauk með 4-3 sigri PSG sem missti bæði Nuno Mendes og Neymar af velli vegna meiðsla.

Heimamenn töpuðu á dögunum naumlega fyrir Bayern München fyrir í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Þá kom Mbappé inn af bekknum þar sem hann var að jafna sig af meiðslum en hann byrjaði leik dagsins og átti eftir að koma mikið við sögu.

Á 11. mínútu fékk Mbappé boltann frá Neymar og lék sér að varnarmönnum Lille áður en hann kom PSG 1-0 yfir.

Aðeins sex mínútum síðar kom Neymar heimaliðinu 2-0 yfir og virtist sem sigurinn væri einfaldlega í höfn. Bafode Diakite minnkaði hins vegar muninn skömmu síðar og staðan 2-1 þegar Nuno Mendes, vinstri bakvörður PSG, þurfti að yfirgefa völlinn vegna meiðsla.

Í upphafi síðari hálfleik missti PSG aftur mann af velli vegna meiðsla. Að þessu sinni var það Neymar en hann var borinn af velli.

Ekki löngu eftir það var staðan orðin 2-2 en Marco Veratti fékk dæmda á sig vítaspyrnu sem Jonathan David skoraði örugglega úr. Gestirnir komust svo yfir á 69. mínútu þegar Jonathan Bamba skoraði eftir góða sendingu Angel Gomes, önnur stoðsending hans í leiknum.

Mbappé var þó ekki á þeim buxunum að tapa leiknum og jafnaði metin á 87. mínútu. Það var svo þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma sem Lionel Messi tryggði PSG vægast sagt dramatískan sigur með glæsilegu marki úr aukaspyrnu. Um er að ræða 699. mark hans fyrir félagslið á ferlinum.

Lokatölur á Parc des Princes-vellinum í París 4-3 heimamönnum í vil. PSG er nú á toppi deildarinnar með 57 stig, átta meira en Marseille sem kemur þar á eftir með leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×