Luna var ráðherra á árunum 2006 til 2012. Hann var ávallt mikill andstæðingur eiturlyfja og glæpa í kringum eiturlyf, gegndi meðal annars embætti forseta alþjóðlegrar fíkniefnaeftirlitsráðstefnu.
Hann þótti afar efnaður miðað við þau laun sem hann var með. Hann átti fjölda stórra húsa um alla Mexíkóborg og fleiri fasteignir. Hann gat aldrei útskýrt hvaðan þær eignir komu.
Árið 2018 þegar réttað var yfir eiturlyfjabaróninum El Chapo viðurkenndi fyrrverandi félagi barónsins, Ismael Zambada García, að hafa tvisvar afhent Luna tvær ferðatöskur sem innihéldu þrjár milljónir dollara, 432 milljónir íslenskra króna. Ári síðar var Luna handtekinn í Texas í Bandaríkjunum.
Hann var ákærður fyrir að taka við mútum og var sakfelldur í gær eftir rúmlega fjögurra vikna réttarhöld í New York. Hann mun þurfa að sitja í fangelsi að minnsta kosti næstu tuttugu árin en hann gæti verið dæmdur í lífstíðarfangelsi. Dómari mun ákveða lengd fangelsisvistar hans í lok júní.