Erlent

Ákærður fyrir að halda úti vef­síðu og fram­kvæma og sýna geldingar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mennirnir hafa ekki svarað ákærunum.
Mennirnir hafa ekki svarað ákærunum.

Marius nokkur Gustavson, 45 ára, mætti fyrir dómstól í Lundúnum í gær en hann er grunaður um að hafa sýnt frá geldingum og öðrum aflimunum á vefsíðu sinni og innheimt gjald af áhorfendum.

Níu manns voru handteknir í tengslum við málið og eru allir grunaðir um aðkomu að einni eða fleiri aðgerðum. Þeir hafa meðal annars verið ákærðir fyrir að valda stórkostlegu líkamstjóni.

Í einhverjum tilvikum var um að ræða aðgerðir á mönnunum sjálfum.

Nathaniel Arnold, 47 ára, hefur verið ákærður fyrir að fjarlægja aðra geirvörtu Gustavson, Damien Byrnes, 35 ára, fyrir að fjarlægja getnaðarlim hans, og Jacob Crimi-Appleby, 22 ára, fyrir að hafa fryst fótlegg hans með þeim afleiðingum að það þurfti að aflima hann.

Öll fórnarlömb mannanna eru sögð eiga það sameiginlegt að tilheyra neðanjarðarkúltúr þar sem fólk gengst viljugt undir aðgerðir til að fjarlægja líkamspart. Þá eru mennirnir sagðir heyra til svokallaðra „nullos“, eða „núllara“, sem af einhverjum ástæðum vilja láta fjarlægja getnaðarlim sinn og eistu.

Gustavson mætti fyrir dóminn í hjólastól, þar sem hann getur ekki gengið vegna aðgerðanna. Hann er sagður hafa verið leiðtogi hópsins og hagnast á því að selja áskriftir að vefsíðu sinni, þar sem hann setti inn myndskeið þar sem líkamspartar, meðal annars getnaðarlimir og eistu, voru fjarlægð.

Vefsíðan er sögð hafa verið starfrækt í um sex ár og Gustavson hagnast um 200 þúsund pund.

Hann er einnig ákærður fyrir að framleiða og dreifa ósiðlegri mynd af barni.

Guardian og fleiri erlendir miðlar hafa fjallað um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×