Körfubolti

Haukar upp í annað sætið eftir stór­sigur á Breiða­bliki

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
 Keira Robinson spilaði vel í kvöld.
 Keira Robinson spilaði vel í kvöld. Vísir/Diego

Haukar ljúka leik í Subway-deild kvenna í körfubolta í 2. sæti eftir stórsigur á Breiðabliki í kvöld. Á sama tíma tapaði Valur heima fyrir Njarðvík. Þá vann ÍR aðeins sinn þriðja sigur á leiktíðinni þegar Grindavík kom í heimsókn.

Eftir hæga byrjun settu Haukar í fluggírinn og pökkuðu Blikum saman með 43 stiga mun. Lokatölur í Ólafssal 88-45 og Haukar enda því Subway-deildina í 2. sæti. Næst á dagskrá er úrslitakeppnin þar sem efstu fjögur liðin; Keflavík, Haukar, Valur og Njarðvík mætast.

Haukar dreifðu álaginu vel í kvöld og alls skoruðu fimm leikmenn 10 stig eða meira. Stigahæst var Keira Robinson með 14 stig ásamt því að taka 15 fráköst og gefa 6 stoðsendingar.

Þar á eftir kom Elísabeth Ýr Ægisdóttir með 12 stig og 6 fráköst. Í liði Blika skoraði Anna Soffía Lárusdóttir 14 stig.

ÍR vann óvæntan eins stigs sigur á Grindavík í kvöld, lokatölur 77-76. Frábær fyrsti leikhluti lagði grunninn að sigrinum en Grindavík vann síðasta fjórðung með 13 stigum. Það dugði þó ekki til í kvöld. ÍR endar tímabilið með aðeins þrjá sigra en tveir af þeim komu í síðustu tveimur umferðum deildarinnar.

Greeta Uprus skoraði 19 stig í liði ÍR og tók 8 fráköst. Hjá Grindavík var Danielle Rodriguez stigahæst með 23 stig og 6 fráköst.

  1. Keflavík, 24 sigrar – 4 töp
  2. Haukar, 22 sigrar – 6 töp
  3. Valur, 22 sigrar – 6 töp
  4. Njarðvík, 18 sigrar -10 töp
  5. Grindavík, 11 sigrar – 17 töp
  6. Fjölnir, 8 sigrar – 20 töp
  7. Breiðablik, 4 sigrar – 24 töp
  8. ÍR, 3 sigrar – 25 töp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×