Þórdís Hrönn var hreint út sagt frábær á síðasta tímabili þegar Valur gerði sér lítið fyrir og stóð uppi sem Íslands- og bikarmeistari. Hún spilaði alla 18 leiki Vals í Bestu deildinni, skoraði sex mörk og var stoðsendingahæst allra leikmanna deildarinnar.
Það er ljóst að um mikið högg er að ræða fyrir Val en Þórdís Hrönn greindi sjálf frá því að hafa slitið krossband. Er þetta í annað sinn sem það gerist á ferli hennar en hún sleit einnig árið 2016 og spilaði ekkert sumarið 2017.
„Ótrúlega erfitt og svekkjandi að fá það staðfest rétt fyrir mót að krossbandið sé slitið. En eins og ég sagði síðast “I’ll be back”!“ sagði Þórdís Hrönn á Instagram-síðu sinni.
Valur mætir Breiðabliki þann 25. apríl næstkomandi þegar nýtt tímabil í Bestu deild kvenna fer af stað.