Umfjöllun og viðtöl: Þór Þorlákshöfn - Valur 92-83 | Íslands- og bikarmeistararnir með bakið upp við vegg Siggeir Ævarsson skrifar 24. apríl 2023 23:00 Kári Jónsson átti erfitt uppdráttar í kvöld. Vísir/Bára Dröfn Þór Þorlákshöfn tók á móti Íslands- og bikarmeisturum Vals í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Subway deildar karla í körfubolta. Sanngjarn sigur Þórs var niðurstaðan. Valsmenn gátu varla keypt sér körfu á löngum stundum meðan að heimamenn léku við hvurn sinn fingur sóknarlega. Umfjöllun og viðtöl væntanleg. Þórsarar hófu leikinn á skotsýningu fyrir utan en þeir voru 6/9 í þristum í fyrsta leikhluta. Valsmenn létu það þó ekki slá sig útaf laginu og voru bæði skynsamir og þolinmóðir í sínum sóknaraðgerðum og voru duglegir að sækja körfur í teiginn og að refsa Þórsurum með hröðum sóknum þegar færi gafst. Þeir uppskáru sannarlega árangur erfiðis síns þegar Hjálmar kom þeim tveimur stigum yfir rétt fyrir lok leikhlutans en Emil jafnaði jafnharðan, staðan 28-28 eftir fyrsta leikhluta og allt í járnum. Þórsarar héldu uppteknum hætti í 2. leikhluta, en þeir voru að fá mikið af opnum skotum fyrir utan og nýta þau frábærlega, ellefu þristar ofan í alls í fyrri hálfleik og nýtingin 55 prósent. Leikhlutinn var örlítið kaflaskiptur, liðin skiptustu á áhlaupum en heimamenn lokuðu af krafti og leiddu í hálfleik 56-51. Valsmenn voru ansi kærulausir í sínum sendingum með átta tapaða bolta og þar af átti Kári Jónsson fimm þeirra. Valsmenn hófu seinni hálfleikinn með látum og minnkuðu muninn í þrjú stig, en þá var eins og þolinmæðina þryti og vonleysið tæki völd. Þeir reyndu að skjóta sig inn í leikinn fyrir utan en það var nákvæmlega ekkert að frétta á þeim vígstöðvum í kvöld. Þeir settu aðeins þrjá þrista í hvorum hálfleik og nýtingin fyrir neðan allar hellur, eða 17 prósent. Þórsarar náðu nokkrum góðum sprettum í seinni hálfleik og komu muninum mest í 17 stig í þriðja leikhluta. Valsmenn virkuðu aldrei líklegir til að brúa þetta bil, þá sjaldan sem þeir náðu að tengja saman nokkrar sóknir fylgdu lélegar sóknir í kjölfarið og á sama tíma gekk sóknarleikur heimamanna eins og smurð vél. Lokaniðurstaðan sanngjarn og nokkuð öruggur sigur Þórsara sem eru þá komnir í algjöra lykilstöðu í einvíginu. Tímabilið því undir hjá Valsmönnum í næsta leik sem hljóta að ætla sér að gera betur þá en í kvöld og það verður að teljast nokkuð líklegt að þeir hitti ekki aftur á algjöran „off“ leik hjá öllum lykilmönnum, en við spyrjum að leikslokum! Af hverju vann Þór? Þeir voru einfaldlega miklu betri á báðum endum vallarins og hittu á algjöran draumaleik sóknarlega. Valsmenn voru mögulega sjálfum sér verstir á köflum en Þórsarar spiluðu framúrskarandi varnarleik og gáfu þeim fáar ódýrar körfur, þá sérstaklega í seinni hálfleik. Hverjir stóðu upp úr? Styrmir Snær Þrastarson, Vincent Shahid og Jordan Semple fóru fyrir Þórsurum í kvöld og áttu allir virkilega gott kvöld. Styrmir stigahæstur með 23 stig og sjö fráköst, og Jordan einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennu. 18 stig, tíu fráköst og níu stoðsendingar frá honum í kvöld. Hjá Völsurum var það Hjálmar Stefánsson sem dró vagninn framan af leik en það sást minna til hans í seinni hálfleik. 16 stig frá honum og þá skoraði Pablo Bertone einnig 16 stig. Hvað gekk illa? Kára Jónssyni gekk skelfilega að komast í takt við leikinn sóknarlega. 0/9 í þristum og sex tapaðar boltar, en hann er þá með 6,5 tapaða bolta að meðaltali í einvíginu. Valsmenn þurfa nauðsynlega á því að halda að hann rífi sig í gang ef þeir ætla ekki snemma í sumarfrí. Hvað gerist næst? Liðin mætast næst á fimmtudaginn á Hlíðarenda, sem gæti orðið síðasti leikurinn í einvíginu. Valsmenn eru komnir með bakið upp við vegginn fræga og þurfa að spila miklu betur en í kvöld, og myndu líka eflaust þiggja betri mætingu frá stuðningsmönnum sínum en í kvöld en Valsarar náðu ekki að fylla þau fáu sæti sem þeir fengu úthlutað í Icelandic Glacial höllinni. Við vorum bara að spila Þórs körfubolta Lárus Jónsson, þjálfari Þórs ÞorlákshafnarVísir/Hulda Margrét Lárus Jónsson þjálfari Þórs var jarðtengdur að vanda eftir leik. Hann sagði að hans menn hefðu einfaldlega spilað sinn leik, og þá gerist góðir hlutir. „Góð hittni hjá okkur. Við vorum bara að spila Þórs körfubolta. Hraðan sóknarleik og ákafan varnarleik. Láta vaða og svo bara kemur í ljós hvort við vinnum eða töpum.“ Þórsar hófu leikinn á hálfgerðri skotsýningu en Valsmenn voru ekki tilbúnir að gefast upp. Í seinni hálfleik hertu Þórsarar vörnina og lokuðu á hraðaupphlaup Valsara sem gerði gæfumuninn að mati Lárusar. „Mér fannst það gera gæfumuninn í seinni hálfleik að þeir skora bara tvö stig úr hraðaupphlaupum. Þeir skoruðu 13 úr þeim í fyrri hálfleik. Við náðum að loka fyrir það og persónulega held ég að þess vegna höfum við unnið leikinn.“ “Þeir héldu sér inni í leiknum með baráttu og sóknarfráköstum. Það er eitthvað við þurfum að laga fyrir næsta. Af hverju voru þeir að ná svona mörgum sóknarfráköstum? Annars bara ánægður með strákana, þeir voru bara að láta vaða, þorðu að vera til og höfðu gaman af því að spila körfu.“ Kári Jónsson átti einn sinn slakasta leik í langan tíma. Lárus sagði að það hefði ekki verið leikplanið að loka sérstaklega á hann. „Ég veit það ekki. Er ekki allt í lagi að menn eigi einn af 50 lélegum? Stundum gerist það.“ Þórsarar eru komnir í lykilstöðu í einvíginu eftir þennan sigur en Lárus vildi þó ekki fara fram úr sér í bjartsýni. „Við verðum bara að koma inn í þann leik eins og enginn sé morgundagurinn og svo bara kemur þetta í ljós. Við spilum bara Þór Þorlákshöfn körfubolta, ákafa vörn og hraðan sóknarleik.“ Meirihluti íbúa Þorlákshafnar voru mættir í stúkuna í kvöld, má ekki búast við að þeir fjölmenni í Reykjavík á fimmtudaginn? „Jú. Bara frábært að fá svona góðan stuðning. Í síðasta leik í Valsheimilinu fengum við alveg frábæran stuðning. Gaman að fá græna drekann að tromma okkur í gang og ég bara skora á alla að mæta og að sjálfsögðu Valsara líka. Búum til gott körfuboltapartý.“ - sagði Lárus að lokum. Við náðum aldrei að tengja saman nokkur „play“, hvort sem það var sóknar- eða varnarlega Kári hefur átt betri leiki.Vísir/Bára Dröfn Kári Jónsson hefur oft átt betri leiki en í kvöld. Hann tók undir að þetta Valsmenn hefðu einfaldlega aldrei fundið taktinn í leiknum. „Svo sannarlega ekki. Við náðum aldrei að tengja saman nokkur „play“, hvort sem það var sóknar- eða varnarlega eða hvað og fá smá áhlaup og stemmingu. Náðum því aldrei og þeir gerðu mjög vel í sínu.“ Valsmenn gerðu ágætlega að hanga í Þórsurum þrátt fyrir góða hittni en svo fjaraði smám saman undan þeirra leik. Kári gat ekki greint nákvæmlega hvað það var sem kostaði þá sigurinn, það væri verkefni fyrir næsta vídjófund. „Þeir náttúrulega komu út mjög heitir og hittu mjög vel, en mér fannst við gera samt ágætlega að halda okkur inni í þessu. En þeir skora 56 stig í hálfleik sem er náttúrulega alltof alltof mikið fyrir okkur en samt var þetta í rauninni leikur. Við þurfum að kíkja á þetta og gera margt betur á fimmtudaginn.“ Nú er tímabilið bara undir á fimmtudaginn? „Heldur betur. Nú er kominn alvöru pressa á okkur og við þurfum að þjappa okkur saman og gera betur og þurfum að vinna á fimmtudaginn, annars er það bara sumarfrí.“ Kári fór meiddur útaf í seinni hálfleik en kom aftur inn á og kláraði leikinn. Hann sagði meiðslin ekki alvarleg. „Bara smá bylta, ég er bara flottur.“ Sóknin er aldrei vandamál hjá okkur Styrmir Snær var frábær í kvöldVísir/Bára Dröfn Styrmir Snær Þrastarson fór fyrir sóknarleik Þórsara í kvöld. Aðspurður hvort sigurinn hefði verið skrifaður í skýinn með skotsýningunni í upphafi sagði Styrmir að vörnin hefði í raun verið vandamál í fyrri hálfleik. „Við hleyptum þeim alltof mikið inn í fyrri hálfleikinn með slakri vörn en svo tókum við mörg varnarstopp í seinni og klárum þetta eftir það.“ Sóknarleikur Þórsara gekk nánast eins og í lygasögu á köflum en Styrmir sagði að sóknin væri aldrei til vandræða hjá þeim. „Sóknin er aldrei vandamál hjá okkur. Við fáum í raun öll skot sem við viljum, þurfum bara að hitta úr þeim. Þetta er aðallega vörnin sem við þurfum að passa. Um leið og við spilum góða vörn þá fáum við hraða körfu hinumegin og þá bara sprengjum við leikinn.“ Styrmir missti af tveimur síðustu leikjunum í einvíginu gegn Haukum í 8-liða úrslitum vegna höfuðmeiðsla, en virðist vera búinn að ná sér fullkomlega. „Ég er bara orðinn góður. Kominn aftur í rétta formið sem ég hef verið í. Bara 100%.“ Nú eru Þórsarar í dauðafæri að klára einvígið 3-0. Styrmir sagði að það væri enginn skjálfti í honum og félögum fyrir næsta leik. „Það er stefnan að fara í Valsheimilið á fimmtudaginn og taka þá 3-0“ Körfubolti Subway-deild karla Valur Þór Þorlákshöfn
Þór Þorlákshöfn tók á móti Íslands- og bikarmeisturum Vals í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Subway deildar karla í körfubolta. Sanngjarn sigur Þórs var niðurstaðan. Valsmenn gátu varla keypt sér körfu á löngum stundum meðan að heimamenn léku við hvurn sinn fingur sóknarlega. Umfjöllun og viðtöl væntanleg. Þórsarar hófu leikinn á skotsýningu fyrir utan en þeir voru 6/9 í þristum í fyrsta leikhluta. Valsmenn létu það þó ekki slá sig útaf laginu og voru bæði skynsamir og þolinmóðir í sínum sóknaraðgerðum og voru duglegir að sækja körfur í teiginn og að refsa Þórsurum með hröðum sóknum þegar færi gafst. Þeir uppskáru sannarlega árangur erfiðis síns þegar Hjálmar kom þeim tveimur stigum yfir rétt fyrir lok leikhlutans en Emil jafnaði jafnharðan, staðan 28-28 eftir fyrsta leikhluta og allt í járnum. Þórsarar héldu uppteknum hætti í 2. leikhluta, en þeir voru að fá mikið af opnum skotum fyrir utan og nýta þau frábærlega, ellefu þristar ofan í alls í fyrri hálfleik og nýtingin 55 prósent. Leikhlutinn var örlítið kaflaskiptur, liðin skiptustu á áhlaupum en heimamenn lokuðu af krafti og leiddu í hálfleik 56-51. Valsmenn voru ansi kærulausir í sínum sendingum með átta tapaða bolta og þar af átti Kári Jónsson fimm þeirra. Valsmenn hófu seinni hálfleikinn með látum og minnkuðu muninn í þrjú stig, en þá var eins og þolinmæðina þryti og vonleysið tæki völd. Þeir reyndu að skjóta sig inn í leikinn fyrir utan en það var nákvæmlega ekkert að frétta á þeim vígstöðvum í kvöld. Þeir settu aðeins þrjá þrista í hvorum hálfleik og nýtingin fyrir neðan allar hellur, eða 17 prósent. Þórsarar náðu nokkrum góðum sprettum í seinni hálfleik og komu muninum mest í 17 stig í þriðja leikhluta. Valsmenn virkuðu aldrei líklegir til að brúa þetta bil, þá sjaldan sem þeir náðu að tengja saman nokkrar sóknir fylgdu lélegar sóknir í kjölfarið og á sama tíma gekk sóknarleikur heimamanna eins og smurð vél. Lokaniðurstaðan sanngjarn og nokkuð öruggur sigur Þórsara sem eru þá komnir í algjöra lykilstöðu í einvíginu. Tímabilið því undir hjá Valsmönnum í næsta leik sem hljóta að ætla sér að gera betur þá en í kvöld og það verður að teljast nokkuð líklegt að þeir hitti ekki aftur á algjöran „off“ leik hjá öllum lykilmönnum, en við spyrjum að leikslokum! Af hverju vann Þór? Þeir voru einfaldlega miklu betri á báðum endum vallarins og hittu á algjöran draumaleik sóknarlega. Valsmenn voru mögulega sjálfum sér verstir á köflum en Þórsarar spiluðu framúrskarandi varnarleik og gáfu þeim fáar ódýrar körfur, þá sérstaklega í seinni hálfleik. Hverjir stóðu upp úr? Styrmir Snær Þrastarson, Vincent Shahid og Jordan Semple fóru fyrir Þórsurum í kvöld og áttu allir virkilega gott kvöld. Styrmir stigahæstur með 23 stig og sjö fráköst, og Jordan einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennu. 18 stig, tíu fráköst og níu stoðsendingar frá honum í kvöld. Hjá Völsurum var það Hjálmar Stefánsson sem dró vagninn framan af leik en það sást minna til hans í seinni hálfleik. 16 stig frá honum og þá skoraði Pablo Bertone einnig 16 stig. Hvað gekk illa? Kára Jónssyni gekk skelfilega að komast í takt við leikinn sóknarlega. 0/9 í þristum og sex tapaðar boltar, en hann er þá með 6,5 tapaða bolta að meðaltali í einvíginu. Valsmenn þurfa nauðsynlega á því að halda að hann rífi sig í gang ef þeir ætla ekki snemma í sumarfrí. Hvað gerist næst? Liðin mætast næst á fimmtudaginn á Hlíðarenda, sem gæti orðið síðasti leikurinn í einvíginu. Valsmenn eru komnir með bakið upp við vegginn fræga og þurfa að spila miklu betur en í kvöld, og myndu líka eflaust þiggja betri mætingu frá stuðningsmönnum sínum en í kvöld en Valsarar náðu ekki að fylla þau fáu sæti sem þeir fengu úthlutað í Icelandic Glacial höllinni. Við vorum bara að spila Þórs körfubolta Lárus Jónsson, þjálfari Þórs ÞorlákshafnarVísir/Hulda Margrét Lárus Jónsson þjálfari Þórs var jarðtengdur að vanda eftir leik. Hann sagði að hans menn hefðu einfaldlega spilað sinn leik, og þá gerist góðir hlutir. „Góð hittni hjá okkur. Við vorum bara að spila Þórs körfubolta. Hraðan sóknarleik og ákafan varnarleik. Láta vaða og svo bara kemur í ljós hvort við vinnum eða töpum.“ Þórsar hófu leikinn á hálfgerðri skotsýningu en Valsmenn voru ekki tilbúnir að gefast upp. Í seinni hálfleik hertu Þórsarar vörnina og lokuðu á hraðaupphlaup Valsara sem gerði gæfumuninn að mati Lárusar. „Mér fannst það gera gæfumuninn í seinni hálfleik að þeir skora bara tvö stig úr hraðaupphlaupum. Þeir skoruðu 13 úr þeim í fyrri hálfleik. Við náðum að loka fyrir það og persónulega held ég að þess vegna höfum við unnið leikinn.“ “Þeir héldu sér inni í leiknum með baráttu og sóknarfráköstum. Það er eitthvað við þurfum að laga fyrir næsta. Af hverju voru þeir að ná svona mörgum sóknarfráköstum? Annars bara ánægður með strákana, þeir voru bara að láta vaða, þorðu að vera til og höfðu gaman af því að spila körfu.“ Kári Jónsson átti einn sinn slakasta leik í langan tíma. Lárus sagði að það hefði ekki verið leikplanið að loka sérstaklega á hann. „Ég veit það ekki. Er ekki allt í lagi að menn eigi einn af 50 lélegum? Stundum gerist það.“ Þórsarar eru komnir í lykilstöðu í einvíginu eftir þennan sigur en Lárus vildi þó ekki fara fram úr sér í bjartsýni. „Við verðum bara að koma inn í þann leik eins og enginn sé morgundagurinn og svo bara kemur þetta í ljós. Við spilum bara Þór Þorlákshöfn körfubolta, ákafa vörn og hraðan sóknarleik.“ Meirihluti íbúa Þorlákshafnar voru mættir í stúkuna í kvöld, má ekki búast við að þeir fjölmenni í Reykjavík á fimmtudaginn? „Jú. Bara frábært að fá svona góðan stuðning. Í síðasta leik í Valsheimilinu fengum við alveg frábæran stuðning. Gaman að fá græna drekann að tromma okkur í gang og ég bara skora á alla að mæta og að sjálfsögðu Valsara líka. Búum til gott körfuboltapartý.“ - sagði Lárus að lokum. Við náðum aldrei að tengja saman nokkur „play“, hvort sem það var sóknar- eða varnarlega Kári hefur átt betri leiki.Vísir/Bára Dröfn Kári Jónsson hefur oft átt betri leiki en í kvöld. Hann tók undir að þetta Valsmenn hefðu einfaldlega aldrei fundið taktinn í leiknum. „Svo sannarlega ekki. Við náðum aldrei að tengja saman nokkur „play“, hvort sem það var sóknar- eða varnarlega eða hvað og fá smá áhlaup og stemmingu. Náðum því aldrei og þeir gerðu mjög vel í sínu.“ Valsmenn gerðu ágætlega að hanga í Þórsurum þrátt fyrir góða hittni en svo fjaraði smám saman undan þeirra leik. Kári gat ekki greint nákvæmlega hvað það var sem kostaði þá sigurinn, það væri verkefni fyrir næsta vídjófund. „Þeir náttúrulega komu út mjög heitir og hittu mjög vel, en mér fannst við gera samt ágætlega að halda okkur inni í þessu. En þeir skora 56 stig í hálfleik sem er náttúrulega alltof alltof mikið fyrir okkur en samt var þetta í rauninni leikur. Við þurfum að kíkja á þetta og gera margt betur á fimmtudaginn.“ Nú er tímabilið bara undir á fimmtudaginn? „Heldur betur. Nú er kominn alvöru pressa á okkur og við þurfum að þjappa okkur saman og gera betur og þurfum að vinna á fimmtudaginn, annars er það bara sumarfrí.“ Kári fór meiddur útaf í seinni hálfleik en kom aftur inn á og kláraði leikinn. Hann sagði meiðslin ekki alvarleg. „Bara smá bylta, ég er bara flottur.“ Sóknin er aldrei vandamál hjá okkur Styrmir Snær var frábær í kvöldVísir/Bára Dröfn Styrmir Snær Þrastarson fór fyrir sóknarleik Þórsara í kvöld. Aðspurður hvort sigurinn hefði verið skrifaður í skýinn með skotsýningunni í upphafi sagði Styrmir að vörnin hefði í raun verið vandamál í fyrri hálfleik. „Við hleyptum þeim alltof mikið inn í fyrri hálfleikinn með slakri vörn en svo tókum við mörg varnarstopp í seinni og klárum þetta eftir það.“ Sóknarleikur Þórsara gekk nánast eins og í lygasögu á köflum en Styrmir sagði að sóknin væri aldrei til vandræða hjá þeim. „Sóknin er aldrei vandamál hjá okkur. Við fáum í raun öll skot sem við viljum, þurfum bara að hitta úr þeim. Þetta er aðallega vörnin sem við þurfum að passa. Um leið og við spilum góða vörn þá fáum við hraða körfu hinumegin og þá bara sprengjum við leikinn.“ Styrmir missti af tveimur síðustu leikjunum í einvíginu gegn Haukum í 8-liða úrslitum vegna höfuðmeiðsla, en virðist vera búinn að ná sér fullkomlega. „Ég er bara orðinn góður. Kominn aftur í rétta formið sem ég hef verið í. Bara 100%.“ Nú eru Þórsarar í dauðafæri að klára einvígið 3-0. Styrmir sagði að það væri enginn skjálfti í honum og félögum fyrir næsta leik. „Það er stefnan að fara í Valsheimilið á fimmtudaginn og taka þá 3-0“
Uppgjörið: KR - Grindavík 120-112 | KR fór með sigur úr framlengingu gegn fáliðuðum Grindvíkingum