Innlent

Pantaði sér pizzu á spítala­fötunum eftir hamarsárás

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla fjarlægði skráningarmerki af níu bifreiðum í póstnúmerunum 104 og 108.
Lögregla fjarlægði skráningarmerki af níu bifreiðum í póstnúmerunum 104 og 108. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um klukkan 17:30 í gær um stórfellda líkamsárás í póstnúmerinu 111, þar sem einstaklingur hafði verið sleginn ítrekað í höfuðið með hamri.

Árásarþolinn var fluttur með sjúkrabifreið á Landspítala en síðar um kvöldið barst tilkynning þess efnis að hann væri nú staddur á pizzastað í borginni, þar sem hann væri að panta sér pizzu í spítalafötunum.

Ekki er vitað hverjir stóðu að árásinni á manninn.

Lögreglu barst einnig tilkynning um aðra líkamsárás í póstnúmerinu 108 en þar var árásarmaðurinn handtekinn og vistaður í fangageymslu. Hann er einnig grunaður um ölvunarakstur.

Þá óskaði leigubifreiðastjóri eftir aðstoð í Kópavogi vegna manns sem virtist hafa orðið fyrir slysi. Sá reyndist með opið beinbrot á fæti og var fluttur með sjúkrabifreið á Landspítala.

Tilkynnt var um tilraun til innbrots í póstnúmerinu 111, þar sem brotist var inn í nokkrar geymslur. Ekki liggur fyrir að nokkru hafi verið stolið. Þá var maður handtekinn grunaður um vörslu fíkniefna en hann brást illa við afskiptum lögregu og hótaði þeim barsmíðum og lífláti. 

Hann verður kærður fyrir ofbeldi gegn opinberum starfsmönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×