Alls hafa verið skorð 106 mörk í fyrstu þrjátíu leikjunum eða 3,53 mörk að meðaltali í leik.
Gamla metið var 102 mörk sem voru skoruð í fyrstu fimm umferðunum sumarið 2020. Reyndar fóru aðeins 29 leikir fram í þessum fyrstu fimm umferðum það sumar því leikur Stjörnunnar og KR var aldrei spilaður. Fyrst var honum frestað og svo var lokakafla mótsins aflýst vegna kórónuveirufaraldursins.
Hvort að það hefði verið fimm marka leikur eða ekki þá breytir því það ekki að aldrei hefur verið skorað meira í fyrstu fimm umferðunum en í ár.
Mörkin voru reyndar bara tólf í annarri umferðinni en í öllum hinum fjórum umferðunum hefur verið skorað 21 mark eða fleiri þar af 73 mörk í síðustu þremur umferðum sem gerir 4,06 mörk að meðaltali í leik.
Fimm af tólf liðum deildarinnar hafa skorað meira en tvö mörk að meðaltali í leik og aðeins tvö, Keflavík og KR, hafa ekki náð því að skora mark í leik.
Valsmenn hafa skorað mest eða fjórtán mörk, Blikar eru með þrettán mörk og Víkingar hafa skorað tólf mörk.
Mörkunum fjölgaði mikið á síðustu leiktíð þegar Besta deildin fór fyrst fram en það var besta markasumar í 29 ár. Áframhald virðist vera á þessari þróun sem er gleðiefni fyrir fótboltaáhugafólk.
- Flest mörk í fyrstu fimm umferðunum í efstu deild karla:
- (Í nútíma fótbolta 1977-2023)
- 106 mörk - 2023
- 102 mörk - 2020
- 101 mark - 2008
- 101 mark - 2022
- 100 mörk - 2017
- 93 mörk - 1996
- 93 mörk - 2010
- 92 mörk - 1993
- 90 mörk - 2009
- 90 mörk - 2021