Innlent

Öryggis­vörður Nova skarst í leikinn

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Maðurinn var handtekinn á bílastæði fyrir utan verslun Nova í Lágmúla.
Maðurinn var handtekinn á bílastæði fyrir utan verslun Nova í Lágmúla. Vísir/Vilhelm

Öryggisvörður Nova skarst í leikinn vegna manns sem var vopnaður hníf á bílastæði verslunarinnar við Lágmúla í Reykjavík í dag. Maðurinn er nú í haldi lögreglu.

Þuríður Björg Guðnadóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá Nova, segir í samtali við Vísi að starfsmenn verslunarinnar hafi hringt á lögregluna vegna mannsins sem mætt hafi á bílastæðið með hníf. Lögregla hafi verið fljót að mæta á vettvang.

„Við hringdum bara strax í lögregluna og öryggisvörðurinn okkar skarst í leikinn og yfirbugaði manninn. Þetta tók mjög fljótt af þar sem að lögreglan var einkar snögg að mæta á staðinn.“

Þuríður segir að maðurinn hafi aldrei náð að beita hnífnum. „Þetta gerðist allt saman mjög fljótt og það var sem betur fer engum meint af.“

Guðmundur Pétur Guðmundsson, lögreglufulltrúi, staðfestir í samtali við fréttastofu að lögregla hafi mætt á bílastæði Nova fyrr í dag. Hann segir málið rannsakað sem líkamsárás og að maðurinn sé í haldi lögreglu.

Frétt uppfærð kl. 14:35. 

Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar kom fram að tveir menn hafi tekist á. Rétt er að einungis var um einn mann að ræða sem öryggisvörður yfirbugaði áður en lögreglan mætti og handtók hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×