Handbolti

ÍR vann og Sel­foss spilar í næst­efstu deild á næstu leik­tíð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
ÍR fagnar sætinu í Olís-deildinni.
ÍR fagnar sætinu í Olís-deildinni. ÍR

Selfoss og ÍR mættust í oddaleik um sæti í Olís-deild kvenna í handbolta á næstu leiktíð. Fór það svo að ÍR vann leik kvöldsins með þriggja marka mun, 30-27, og spilar í efstu deild á næstu leiktíð.

Gestirnir úr Breiðholti skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins og juku forskotið hægt og rólega í fyrri hálfleik. Mest komst ÍR átta mörkum yfir en heimaliðið náði að minnka muninn niður í fjögur mörk áður en flautað var til hálfleiks, staðan þá 14-18.

Í þeim síðari hélt Selfoss áfram og náði að jafna metin í stöðunni 22-22. Eftir það var staðan jöfn í smástund en Selfoss mistókst að komast yfir og ÍR náði aftur forystunni. Þegar tíu mínútur lifðu leiks var munurinn tvö mörk en aftur tókst Selfoss að minnka muninn í eitt mark.

Eftir það tók ÍR öll völd og vann á endanum sannfærandi þriggja marka sigur, lokatölur 27-30 og ÍR verður í Olís-deild kvenna á næstu leiktíð. Á sama tíma verður forvitnilegt að fylgjast með framgangi mála á Selfossi en liðið hafði þegar samið við nokkra sterka pósta fyrir komandi leiktíð.

Karen Tinna Demian fór hamförum í liði ÍR og skoraði 12 mörk úr 14 skotum. Vaka Líf Kristinsdóttir, Hanna Karen Ólafsdóttir og Ásthildur Bertha Bjarkadóttir skoruðu 4 mörk hver. Hildur Öder Einarsdóttir varði 10 skot í markinu.

Arna Kristín Einarsdóttir skoraði 10 mörk úr 13 skotum í liði Selfyssinga. Katla María Magnúsdóttir skoraði 7 mörk á meðan Cornelia Hermansson varði 7 skot í markinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×