Loftvarnakerfi Kænugarðs virðast þó hafa náð að skjóta flestar flauganna niður en töluvert tjón hefur þó hlotist af því þegar brak úr flaugum og drónum lenti á íbúðarbyggingum.
Ekki hafa borist fregnir af mannfalli en þrír eru sagðir sárir.
Borgarstjórinn Vitali Klitschko segir brak víða í miðborginni og meðal annars í dýragarði borgarinnar.
Volodomír Selenskí Úkraínuforseti hefur síðustu daga verið á ferð um Evrópu þar sem hann hefur hitt hvern þjóðarleiðtogann á eftir öðrum, nú síðast var hann í Bretlandi á fundum með Rishi Sunak forsætisráðherra.
Tilgangur ferðarinnar er að afla enn meiri stuðnings við varnarbaráttuna heima fyrir.
Frá því Rússar hófu innrás sína í Úkraínu 24. febrúar á síðasta ári hafa þúsundir látið lífið, hermenn jafnt sem almennir borgarar. Borgir og bæir hafa verið lagðir í rúst og um 8,2 milljónir Úkraínumanna hafa neyðst til að flýja átökin.