Kristianstad var fyrir leikinn í dag í fjórða sæti deildarinnar með sextán stig eftir átta leiki. Fyrir ofan voru lið Hammarby, Piteå og Häcken sem er efst með tuttugu og tvö stig. Andstæðingar Kristiandstad í dag var lið Djurgården sem sat í ellefta sæti með sjö stig en hafði þó unnið frábæran sigur á meisturum FC Rosengård fyrr á leiktíðinni.
Það voru hins vegar lærimeyjar Elísabetar Gunnarsdóttur í Kristianstad sem höfðu betur í leiknum í dag. Tabby Tindell og Evelyne Viens sáu til þess að Kristianstad var 2-0 yfir í hálfleik með mörkum undir lok fyrri hálfleiks en strax í upphafi þess síðari minnkaði Flavine Mawete-Musolo muninn fyrir gestina.
Fjórum mínútum fyrir leikslok skoraði Viens hins vegar sitt annað mark í leiknum og kom heimakonum í 3-1 og Hlín Eiríksdóttir gulltryggði síðan sigur Kristianstad þegar hún skoraði fjórða mark liðsins í uppbótartíma. Amanda Andradóttir lék síðustu mínúturnar fyrir Kristianstad.
Öruggur 4-1 sigur staðreynd og Kristianstad fer því upp fyrir Hammarby í töflunni og situr nú í þriðja sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir toppliði Häcken.