Fótbolti

Skoska rigningin setti strik í reikninginn og tafði leik um níu­tíu mínútur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Skoska rigningin gerði leikmönnum afar erfitt fyrir á Hampden Park í gær.
Skoska rigningin gerði leikmönnum afar erfitt fyrir á Hampden Park í gær. Ian MacNicol/Getty Images

Skotar eru með fullt hús stiga eftir fjóra leiki í A-riðli undankeppni EM 2024 eftir 2-0 sigur gegn Georgíu í gærkvöldi. Það var þó frekar skoska rigningin en liðið sem stal fyrirsögnum eftir leik gærkvöldsins.

Callum McGregor kom Skotum í forystu strax á sjöttu mínútu leiksins eftir stoðsendingu frá Lyndon Dykes. Dómari leiksins, Istvan Vad, sá þó engra annarra kosta völ en að gera hlé á leiknum eftir að markið var skorað vegna rigningar.

Leikið var á Hampden Park, þjóðarleikvangi Skotlands, og var völlurinn orðinn gegnsósa af vatni. Eins og sjá má á myndbandinu sem fylgir Twitter-færslunni hér fyrir neðan voru aðstæður langt frá því að vera landsliðum í undankeppni EM sæmandi.

Alls var gert um níutíu mínútna langt hlé á leiknum á meðan beðið var eftir því að rigningin myndi minnka og vallarstarfsmenn hreinsuðu vatn af vellinum.

Leikurinn fór þó að lokum af stað á ný og Scott McTominay tvöfaldaði forystu heimamanna snemma í síðari hálfleik. Georgíumenn fengu tækifæri til að minnka muninn af vítapunktinum í uppbótartíma, en Khvicha Kvaratskhelia misnotaði spyrnuna.

Niðurstaðan varð því 2-0 sigur Skota sem tróna á toppi A-riðils með fullt hús stiga eftir fjóra leiki. Georgíumenn sitja hins vegar í öðru sæti riðilsins með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×