„Þetta byrjaði eftir að Snorri hætti með liðið. Þá hitti ég Óskar Bjarna óvart og hann spurði mig hvort ég væri ekki til í að þjálfa Valsliðið með honum,“ sagði Alexander í viðtali við íþróttadeild.
„Ég sagðist ekkert hafa spáð í því. Svo fór ég að tala við konuna mína um hvað ég ætti að fara að gera á Íslandi. Þá fór ég að hugsa um að kannski gæti ég spilað og þjálfað með Óskari. Svo heyrði ég í Óskari og tjáði honum að kannski gæti ég spilað og hjálpað til. Málið komst þá til Bjögga [Björgvins Páls Gústavssonar] og þá þróaðist þetta hratt.“
Alexander er klárlega einn besti handboltamaður þjóðarinnar frá upphafi og hann hlakkar til að byrja að spila á ný.
„Ég er mjög spenntur. Þetta er eins og að byrja ferilinn á ný. Það verður gaman að sjá hvar ég stend. Að sjálfsögðu er ég ekki að fara að skora tíu mörk í einum leik. Ég ætti samt að geta hjálpað strákunum mikið. Mér finnst gott að komast í lið þar sem ég get hjálpað mikið.“
Alexander hefur ekki æft mikið undanfarið ár en eftir tilkynninguna hefur hann farið á handboltaæfingu tvo daga í röð.
„Ég fór kannski á þrjár æfingar síðasta árið. Ég hef verið að hreyfa mig samt mikið og hef ekki verið með neina verki eins og margir fyrrum handboltamenn á mínum aldri. Ég er í góðu standi.“
Viðtalið við Alexander má sjá hér að neðan.