Fótbolti

Kristall Máni á leið til Danmerkur á láni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kristall Máni Ingason var frábær með Víkingum í fyrra og var keyptur af norska stórveldinu Rosenborg.
Kristall Máni Ingason var frábær með Víkingum í fyrra og var keyptur af norska stórveldinu Rosenborg. Vísir/Hulda Margrét

Samkvæmt hlaðvarpinu Dr. Football er Kristall Máni Ingason á leið til danska liðsins Sönderjyske. Kristall Máni leikur með Rosenborg í Noregi en hann lék með Víkingi í Bestu deildinni í fyrra.

Kristall Máni gekk til liðs við Rosenborg síðasta sumar en hefur ekki alveg fundið taktinn með norska liðinu það sem af er þessu tímabili. Hann komst í fréttirnar í vor eftir að hafa viðurkennt leikaraskap í leik og var skammaður af forráðamönnum félagsins í kjölfarið.

Síðustu vikurnar hefur hann fengið fáar mínútur en gengi Rosenborg á tímabilinu hefur verið arfaslakt. Liðið vann þó sigur á Tromsö á sunnudag en Kristall kom ekki við sögu í leiknum.

Hlaðvarpið Dr. Football greinir frá því í dag að Kristall Máni sé á leið til danska félagsins Sönderjyske en liðið leikur í næst efstu deild þar í landi. Orri Rafn Sigurðarson, fyrrum fréttaritari Fótbolti.net, segir að um lán sé að ræða og hugmyndin sé að Kristall Máni fái mínútur í danska boltanum til að koma sér aftur í takt.

Orri Rafn segir jafnframt að félagaskiptin séu ekki frágengin en að orðrómar hafi verið í gangi í langan tíma um möguleg félagaskipti Kristals Mána.

Kristall Máni var á meðal bestu leikmanna Bestu deildarinnar í fyrra áður en hann yfirgaf Víkinga. Hann hefur skorað eitt mark í átta leikjum fyrir Rosenborg á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×