Fótbolti

Sout­hampton grjót­harðir á að Romeo Lavia sé 50 milljón punda virði | Höfnuðu til­boði Liver­pool

Siggeir Ævarsson skrifar
Romeo Lavia fagnar marki sínu gegn Chelsea í vetur.
Romeo Lavia fagnar marki sínu gegn Chelsea í vetur. EPA-EFE/VINCE MIGNOTT

Hinn 19 ára Romeo Lavia, leikmaður Southampton, hefur vakið athygli margra stórliða undanfarið en hann hefur verið orðaður við m.a. Liverpool, Chelsea og Arsenal. Lavia er sagður hafa mestan áhuga á að ganga til liðs við Liverpool en Southampton verður ekki haggað með kaupverðið.

Southampton liggur lítið á að selja miðjumanninn unga sem þeir líta á sem framtíðarstjörnu en hann á fjögur ár eftir af samningi sínum við liðið. Stjórnendur liðsins, með Jason Wilcox fremstan í flokki, hafa því skellt 50 milljón punda verðmiða á piltinn og höfnuðu í dag tilboði Liverpool sem hljóðaði upp á 40 milljónir.

Lavia kom til Southampton frá Manchester City fyrir ári síðan og kostaði þá 12,5 milljónir punda. Ef af sölunni verður munu City fá í sinn hlut 20% af kaupverðinu en þá hefur einnig verið greint frá að City eigi forkaupsrétt að Lavia og geti jafnað öll tilboð sem Southampton samþykkir í hann.

Það er þó sennilega bara tímaspursmál hvenær af sölunni verður. Lavia vill sjálfur ganga til liðs við Liverpool og hefur takmarkaðan áhuga á að taka slaginn með Southampton í næst efstu deild en liðið féll úr Úrvalsdeildinni í vor.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×