Fótbolti

Félagaskipti Højlund til Manchester United klár

Siggeir Ævarsson skrifar
Højlund hefur verið iðinn við kolann í markaskorun með danska landsliðinu, þar sem hann er með sex mörk í jafnmörgum leikjum
Højlund hefur verið iðinn við kolann í markaskorun með danska landsliðinu, þar sem hann er með sex mörk í jafnmörgum leikjum Vísir/Getty

Manchester United og Atalanta hafa komist að samkomulagi um kaupverð á danska framherjanum Rasmus Højlund en United mun reiða fram rúmar 70 milljónir evra alls.

Højlund hafði áður komist að munnlegu samkomulagi við United og virðist sem svo að áhugi PSG á að fá leikmanninn í sínar raðir hafi engu breytt þar um. 

Þar fyrir utan var tilboð PSG töluvert lægra en forsvarsmenn Atalanta höfðu gert sér vonir um, en samingaviðræður þeirra og United hafa nú staðið yfir í nokkurn tíma og virðist sem svo að samningamenn United hafi haft betur. Atalanta höfðu vonast eftir allt að 100 milljónum evra en þurfa að sætta sig við 70 eins og United höfðu lagt upp með að greiða.

Atalanta léku vináttuleik í dag við Bournemouth þar sem Højlund kom ekkert við sögu. Einhver pappírsvinna er nú eftir en reiknað er með að félögin gangi frá henni á næstu 24-48 tímum og Højlund fari í læknisskoðun hjá United í kjölfarið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×