Fótbolti

Álagsleikur á Akureyri í dag

Siggeir Ævarsson skrifar
KA-menn hafa slegið út tvo andstæðinga í Evrópuævintýri sínu í sumar.
KA-menn hafa slegið út tvo andstæðinga í Evrópuævintýri sínu í sumar. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Breiðablik sækir KA heim á Akureyri í Bestu deildinni í dag en bæði lið hafa spilað ansi marga leiki síðustu vikur og má leiða að því líkur að sumir leikmenn séu að keyra á síðustu bensíndropunum í tanknum.

Liðin hafa náð eftirtektarverðum árangri í Evrópukeppninni í sumar. KA mættu Club Brugge fyrir þremur dögum þar sem liðið steinlá 5-1, og á aftur leik gegn Belgunum 17. ágúst.

Blikar fengu skell í Bosníu sama kvöld þar sem liðið tapaði 6-2 gegn Zrinjski Mostar. Fótboltasérfræðingurinn Máni Pétursson sagði að Breiðablik hefði einfaldlega verið bensínlaust, enda liðið búið að spila 29 leiki á fjórum mánuðum.

Það er skammt stórra högga á milli hjá þessum liðum núna í ágúst, en liðin eiga svo leiki í Bestu deildinni 20. og 21. ágúst. Viðureignin liðanna í dag hefst kl. 16:00 og er að sjálfsögðu í beinni útsendingu hjá Stöð 2 Sport á Bestu deildar rásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×