Viðskipti innlent

Kaup­samningum fækkað um 30 prósent milli ára

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bríet rekur um 250 fasteignir í 34 sveitarfélögum allt í kringum landið.
Bríet rekur um 250 fasteignir í 34 sveitarfélögum allt í kringum landið. Vísir/Vilhelm

Kaupsamningum á öðrum ársfjórðungi fækkaði um 31,1 prósent milli ára en þeir voru 1.793 á þessu ári, samanborið við 2.603 á síðasta ári. Kaupsamningum fjölgaði milli mánaða í júní, voru 698 samanborið við 643 í maí.

Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,8 prósent í júlí. Sérbýli lækkaði um 2,8 prósent en fjölbýli um 0,2 prósent. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins stendur verð í stað milli mánaða en annars staðar lækkaði það um 1,1 prósent.

„Þrátt fyrir að stýrivextir hafi verið hækkaðir samfellt frá maí 2021 þá hafa raunstýrivextir ekki verið jákvæðir í rúm þrjú ár. Raunstýrivextir mælast nú jákvæðir í fyrsta sinn síðan í mars 2020. Tólf mánaða verðbólga hefur verið á niðurleið og vísitala neysluverðs stóð nánast í stað í síðustu mælingu þegar hún hækkaði um 0,03% í júlí. Stýrivextir Seðlabankans hækkuðu um 0,5% í vikunni og eru orðnir 9,25% og hafa ekki verið hærri síðan í desember 2009,“ segir í skýrslunni.

Alls hafa 2.038 nýbyggðar íbúðir komið inn á markað það sem af er ári, þar af 393 í júlí.

Í skýrslunni er fjallað um gjaldþrot fyrirtækja í byggingastarfsemi  en þau voru 37 í maí. Það hefur þá gerst þrisvar á árinu að gjaldþrot fyrirtækja í byggingarstarfsemi hafi veið fleiri en 30 í einum mánuði.

„Sé miðað við 6 mánaða hlaupandi árstíðaleiðrétt meðaltal hafa gjaldþrot í greininni ekki verið fleiri síðan árið 2012. Í júní fækkaði gjaldþrotum og varð 21 fyrirtæki í geiranum gjaldþrota. Jafnframt hefur nýskráðum fyrirtækjum í geiranum fjölgað frá 2019 en 56 fyrirtæki voru nýskráð í júnímánuði.“

Hér má finna skýrsluna í heild.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×