Rubiales gekk of langt í fagnaðarlátum sínum eftir að Spánverjar tryggðu sér sinn fyrsta heimsmeistaratitil kvenna fyrir rúmri viku síðan og smellti rembingskossi á Hermoso í aðdraganda verðlaunaafhendingarinnar.
Málið hefur heldur betur undið upp á sig og Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA hefur sett Rubiales í 90 daga bann frá afskiptum af knattspyrnu eftir að hin 33 ára gamla Hermoso greindi frá því að hún hafi vissulega ekki veitt samþykki fyrir kossinum.
Rubiales heldur þó öðru fram. Hann hefur neitað að segja af sér og segist ætla að berjast allt til loka.
Hermoso hefur fengið mikinn stuðning hvaðanæva af og sýndu leikmenn og stuðningsmenn knattspyrnuleikja um víða Evrópu stuðning sinn í verki um helgina.
Leikmenn báru armbönd og klæddust bolum sem á stóð „Contigo Jenni“ (í. „Við stöndum með Jenni“) eða myllumerkinu #SeAcabó sem á íslensku þýðir „Þetta er búið“. Í stúkum mátti einnig sjá skilti og borða með sömu skilaboðum. Hér fyrir neðan má sjá hluta af þeim stuðningsyfirlýsingum sem sáust um helgina.





