FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandið, setti Rubiales í níutíu daga bann frá afskiptum af fótbolta eftir að Jennifer Hermoso greindi frá því að hún hefði ekki veitt samþykki fyrir rembingskossinum sem hann rak henni eftir úrslitaleik HM.
Þótt haukunum í horni Rubiales fækki óðum stendur mamma hans, Ángeles Béjar, enn þétt við bakið á stráknum sínum.
Samkvæmt fréttum á Spáni hefur mamman gripið til táknrænna mótmælaaðgerða til að sýna Rubiales stuðning. Hún hefur nefnilega lokað sig inni í kirkju og er komin í hungurverkfall þangað til lausn finnst á því sem hún kallar nornaveiðar gegn syni sínum.
Mamman hvetur Hermoso til að segja sannleikann og halda sig við útgáfu sögunnar sem hún sagði í byrjun, að kossinn hefði verið með samþykki beggja aðila. Spænska knattspyrnusambandið setti þá yfirlýsingu í loftið án þess að Hermoso væri með í ráðum.
Rubiales hélt mikla varnarræðu á fundi spænska knattspyrnusambandsins á föstudaginn þar sem hann sagði gagnrýnendum sínum til syndanna. Spænska knattspyrnusambandið studdi við bakið á Rubiales og sakaði Hermoso um lygar. En svo blandaði FIFA sér í málið.