Um þetta úrskurðaði dómstóll Evrópska handknattleikssambandsins en um er að ræða einn anga máls sem skaut upp kollinum í kjölfarið á rannsóknarvinnu TV 2.
Í heimildarmynd TV2, sem bar nafnið Grunsamlegur leikur, sást Nachevski ræða við það sem hann heldur að sé kínverski kaupsýslumaðurinn Herra Zhang um hagræðingu úrslita. Það var í raun leikari sem TV 2 réði til að grípa Nachevski glóðvolgan.
Úrskurður EHF snýr einmitt að þessum anga málsins því þó að Nachievski hafi hafnað boði "kínverska kaupsýslumannsins", þá bar honum skylda til þess að tilkynna þessa beiðni, sem hann gerði ekki.
Þá er ekki loku fyrir það skotið að Nachievski muni fá lengra bann í kjölfarið eftir því sem fleiri angar málsins verða teknir fyrir.
Alþjóða handknattleikssambandið, IHF, hafði áður ákveðið að fylgja fordæmi evrópska handknattleikssambandsins, EHF, og útiloka Norður-Makedóníumanninn Dragan Nachevski frá störfum við stórmót á meðan rannsókn á störfum hans sem formanns dómaranefndar EHF stendur yfir.
Hann var um árabil formaður dómaranefndar EHF, en evrópska sambandið setti Nachevski til hliðar í maí á þessu ári vegna uppljóstrana TV2.