Innlent

Egill segir fjöl­skylduna fegna og segist ekki hafa sama á­huga

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Egill Helgason, sjónvarpsmaður, hefur nóg fyrir stafni í þáttagerð þrátt fyrir að vera horfinn úr Silfrinu.
Egill Helgason, sjónvarpsmaður, hefur nóg fyrir stafni í þáttagerð þrátt fyrir að vera horfinn úr Silfrinu. Vísir/Vilhelm

Egill Helga­son segist skilja sáttur við Silfrið, þar sem hann verður ekki þátta­stjórnandi í haust. Hann kveðst hafa minni á­huga á stjórn­málum nú en áður og segir fjöl­skylduna upp­lifa sig lausa úr prísund. Hann segist nú vinna að undir­búningi nýs sjón­varps­þáttar um pólitík en gefur ekkert upp um hvers eðlis sá þáttur er.

„Ég ætla að taka mér frí frá því og verð ekki í því í vetur alla­vega og er svo sem alveg bara sáttur við það,“ segir Egill í sam­tali við Vísi. Ríkis­út­varpið til­kynnti í gær að um­ræðu­þátturinn Silfrið muni hefja göngu sína á ný þann 25. septem­ber.

Þátturinn var um ára­bil kenndur við Egil sem var þátta­stjórnandi allt frá því að þátturinn hóf göngu sína árið 2000 á Skjá einum, svo á Stöð 2 og loks á RÚV, með fjögurra ára hléi frá 2013 til 2017.

Nú verður Egill ekki lengur við stjórnar­taumana í þáttunum og þá verður þátturinn sýndur klukkan 22:30 á mánu­dags­kvöldum í stað þess að vera sýndur á sunnu­dags­morgni. Ekki hefur náðst í Skarp­héðinn Guð­munds­son, dag­skrár­stjóra RÚV vegna málsins.

Þau Sigríður Hagalín Björnsdóttir, Valgeir Örn Ragnarsson og Bergsteinn Sigurðsson fara nú með umsjón þáttanna. Egill segist meðal annars hafa fengið senda vísu frá Kára Stefáns­syni, for­stjóra Ís­lenskrar erfða­greiningar vegna brott­hvarfsins, sem vakið hefur mikla at­hygli.

Þetta er vinur vonlaust haust,

vindur úti ropar

og Silfrið okkar Egilslaust

ætti að heita kopar.

Fjöl­skyldan fegin

„Við á­kváðum þetta saman,“ segir Egill um á­kvörðun sína um að stíga til hliðar úr Silfrinu og á þar við stjórn­endur Ríkis­út­varpsins. Hann segist hafa fullt á sinni könnu og nefnir Kiljuna auk fleiri þátta.

„Það eru nokkrir hlutir varðandi Silfrið, það er dá­lítið slítandi að halda því gangandi og manna þáttinn. Sér­stak­lega fyrir fjöl­skylduna mína, ef það gengur illa að manna þættina þá er ég í vondu skapi og verð hálf­gerð heimilis­pest,“ segir Egill á léttum nótum.

„Þannig að fjöl­skyldan er bara mjög á­nægð með þessa á­kvörðun. Þetta er búið að vera svona í rúm 25 ár þannig að þeim finnst þau vera laus úr ein­hvers­konar prísund.“

Hefur ekki sama á­huga

„Ég ætla heldur ekkert að draga dul á það að ég hef ekki alveg jafn mikinn á­huga á stjórn­málum og ég hafði. Mér finnst um­ræðan, bæði hér heima og í heiminum, vera orðin svo dapur eitt­hvað og and­styggi­leg.“

Þrátt fyrir það er Egill nú að vinna að öðrum pólitískum þáttum. Hann segir ætlun sína þar að kafa dýpra og reyna að dýpka um­ræðuna og sýna fram á hvers vegna þörf sé á góðum stjórn­málum.

Verða þetta um­ræðu­þættir?

„Það er of snemmt að segja til um það. En eins og ég segi þá er alveg ó­trú­lega margt sem ég get fengist við og ég er í rauninni bara í kjör­stðu hvað það varðar.“

Nýr tími að skandinavískri fyrir­mynd

Nýr tími Silfursins, að kvöldi mánu­dags eftir tíu­fréttir, vekur nokkra at­hygli. Egill segir at­hyglis­vert að sjá hvernig það muni ganga.

„Þegar við byrjuðum með Silfur Egils, á Skjá-einum og svo á Stöð 2 þá á­kváðum við að hafa þetta í kringum há­degi á sunnu­dögum og það var svo­lítið að banda­rískri og breskri fyrir­mynd, þar sem hafa verið slíkir morgun­þættir á sunnu­dögum,“ útskýrir Egill. 

„Þarna er verið að færa þetta til og nú er þetta meira skandinavískt. Skandinavarnir eru meira með þetta á kvöldin. Svona þáttur er náttúru­lega aldrei gerður út til þess að vera með grenjandi á­horf. Þeir slá aldrei nein á­horfs­met en þeir eru náttúru­lega mikil­vægir og ég held að menn renni svo­lítið blint í sjóinn með þessa tíma en ég held að hann eigi að ganga.“

Aðsókn muni aukast í messu

Egill segist telja að lík­lega séu fleiri með kveikt á sjón­varpinu á mánu­dags­kvöldi heldur en á sunnu­dags­morgni. Hann rifjar það upp að oft hafi sér fundist hann vera að keppa við barna­tímann, en nú horfi börnin lík­lega ekki lengur á línu­lega dag­skrá.

„Svo kannski fyllist kirkjan aftur,“ segir Egill hlæjandi. „Ég var að tala við prest vin minn og sagði honum að nú myndi verða fullt í messu hjá honum á sunnu­daginn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×