Fótbolti

Neymar missti stjórn á skapi sínu í jafn­tefli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Neymar var ekki upp á sitt besta í gærkvöld.
Neymar var ekki upp á sitt besta í gærkvöld. Yasser Bakhsh/Getty Images

Stjörnum prýdd lið Al Hilal náði aðeins í stig á heimavelli gegn Navbahor Namangan frá Úsbekistan í leik liðanna í Meistaradeildar Asíu í knattspyrnu. Brasilíumaðurinn Neymar missti stjórn á skapi sínu í leiknum.

Gestirnir frá Úsbekistan tóku óvænt forystuna í leiknum. Þó það hafi vantað nöfn á borð við Bono, Kalidou Koulibaly og Sergej Milinkovic-Savic í lið Al Hilal þá voru ásamt Neymar þeir Rúben Neves, Aleksandar Mitrovic og hinir brasilísku Malcom og Michael í byrjunarliðinu.

Þrátt fyrir að vera með mun sterkara lið á pappír virtist sem gestirnir myndu taka stigin þrjú. Það er þangað til komið var tíu mínútum fram yfir venjulegan leiktíma en þá loks jafnaði Al Hilal, lokatölur 1-1.

Það var hins vegar atvik um miðbik síðari hálfleiks sem vakti hvað mesta athygli. Neymar missti þá stjórn á skapi sínu þegar hann ætlaði að taka aukaspyrnu snögglega en leikmaður gestanna stóð í vegi fyrir honum.

Neymar brást hinn versti við og ýtti leikmanni Navbahor Namangan frá með þeim afleiðingum að hann féll til jarðar. Í kjölfarið sparkaði Neymar boltanum svo í hann og fékk verðskuldað gult spjald að launum.

Hér að neðan má sjá mörkin og öll helstu færi leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×