Fótbolti

Blikar mæta sigur­sælasta liði Ísrael sem er með þekktan markaskorara í brúnni

Aron Guðmundsson skrifar
Það verður hart barist á Bloomfield leikvanginum í Tel Aviv á morgun þegar að lærisveinar Robbie Keane í Maccabi Tel Aviv, með Eran Zahavi fremstan í flokki, taka á móti Óskari Hrafni og lærisveinum hans í Breiðabliki í fyrstu umferð riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu
Það verður hart barist á Bloomfield leikvanginum í Tel Aviv á morgun þegar að lærisveinar Robbie Keane í Maccabi Tel Aviv, með Eran Zahavi fremstan í flokki, taka á móti Óskari Hrafni og lærisveinum hans í Breiðabliki í fyrstu umferð riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu Vísir/Samsett mynd

Veg­ferð karla­liðs Breiða­bliks í fót­bolta í riðla­keppni Sam­bands­deildar Evrópu hefst í Ísrael, nánar til­tekið Tel Aviv, á fimmtu­daginn kemur þegar að Blikar heim­sækja sigur­sælasta lið Ísrael, Mac­cabi Tel Aviv sem þjálfað er af þekktum fyrrum marka­skorara úr ensku úr­vals­deildinni.

Aron Guðmundsson skrifar frá Tel Aviv, Ísrael

Mac­cabi Tel Aviv á sér langa sögu, fé­lagið var upp­haf­lega stofnað árið 1906, þá sem HaRis­hon Le Zion-Yafo, og er elsta sem og sigur­sælasta ísraelska fót­bolta­liðið frá upp­hafi með fjölda titla á feril­skránni og spilar heima­leiki sína nú á Bloom­fi­eld leik­vanginum í Tel Aviv, leik­vangur sem tekur tæp­lega 29 þúsund á­horf­endur í sæti.

Sigur­hefðin er eins og fyrr segir mikil en undan­farin tvö tíma­bil hafa ekki verið jafn gjöful og stuðnings­menn Mac­cabi Tel Aviv hafa vanist í gegnum ára­tugina og enginn titill skilað sér í hús.

Stemningin á Bloomfield leikvanginum getur verið mögnuðVísir/Getty

Mac­cabi Tel Aviv varð síðast ísraelskur meistari tíma­bilið 2019-2020 en tíma­bilið þar á eftir vann liðið ríkis­bikarinn, Toto bikarinn og Ofur­bikarinn í Ísrael. Á sama tíma gerði liðið vel í Evrópu­keppni og komst alla leið í 32-liða úr­slit Evrópu­deildarinnar en féll þar úr leik gegn úkraínska liðinu Shak­htar Do­netsk

Ör þjálfara­skipti

Ef maður rýnir að­eins í stöðuna undan­farin ár hjá Mac­cabi Tel Aviv verður manni fljótt ljóst að reynt hefur á þolin­mæðina hjá for­ráða­mönnum fé­lagsins, sem hafa oftar en ekki í þeirri stöðu á­kveðið að fara í þjálfara­breytingar.

Frá árinu 2020, ári eftir að Mac­cabi Tel Aviv varð síðast ísraelskur meistari, hefur alls sex sinum verið skipt um þjálfara hjá liðinu.

Sjö mis­munandi þjálfarar á alls tæpum þremur árum er ansi vel í lagt en nú vonast for­ráða­menn Mac­cabi Tel Aviv til þess að rétti maðurinn sé í brúnni. Fyrrum goð­sögn úr ensku úr­vals­deildinni var ráðinn inn í júní fyrr á þessu ári.

Peter Bosz, núverandi þjálfari PSV Eindhoven, Avram Grant fyrrum þjálfari Chelsea og Aitor Karanka eru á meðal þekktra þjálfara sem hafa þjálfað lið Maccabi Tel Aviv Myndir: GettyImagesVísir/Samsett mynd

Írinn sem skoraði mörkin

Það var seinni­part júní­mánaðar á þessu ári sem greint var frá því að marka­hrókurinn Robbie Kea­ne, fyrrum leik­maður í ensku úr­vals­deildinni með liðum á borð við Totten­ham, Liver­pool og West Ham United, hefði verið ráðinn þjálfari Mac­cabi Tel Aviv á þriggja ára samningi.

Kea­ne er ekki með mikla reynslu á bakinu sem aðal­þjálfari, í raun bara hjá einu fé­lags­liði fyrir komuna til Tel Avív yfir stutt tíma­bil sem þjálfari ind­verska liðsins ATK sem hann hafði áður spilað fyrir undir stjórn Ted­dy Shering­ham.

Keane hefur farið vel af stað sem þjálfari Maccabi Tel AvivVísir/Getty

Þá hefur hann einnig starfað sem að­stoðar­þjálfari hjá írska lands­liðinu, enska B-deildar liðinu Midd­les­brough og þá var hann hluti af þjálfara­t­eymi Sam Allar­dyce hjá Leeds United undir lok síðasta tíma­bils í ensku úr­vals­deildinni.

Kea­ne hefur farið afar vel af stað í Ísrael sem þjálfari Mac­cabi Tel Aviv og á liðið enn eftir að tapa leik undir hans stjórn en alls hefur Kea­ne stýrt liðinu í tólf leikjum ef æfingar­leikir eru með­taldir.

Sem stendur er Mac­cabi Tel Aviv á toppi ísraelsku úr­vals­deildarinnar með sjö stig eftir fyrstu þrjá um­ferðirnar

Tvisvar í riðla­keppni Meistara­deildarinnar

Mac­cabi Tel Aviv hefur mun meiri Evrópu­reynslu heldur en Breiða­blik sem fer nú í fyrsta sinn í riðla­keppni í Evrópu. Það sama má í raun segja um öll önnur lið í Sam­bands­deildinni þetta árið, nema kannski fyrir utan frændur okkar í KÍ Klaks­vík.

Í tví­gang hefur Mac­cabi Tel Aviv átt sæti í riðla­keppni Meistara­deildar Evrópu, það var tíma­bilin 2004/05 og 2015/16 og þá hefur liðið einnig í þrí­gang átt sæti í riðla­keppni Evrópu­deildarinnar. Þar hefur liðið lengst náð í 32-liða úr­slit, tíma­bilið 2020/21. Þá fór Mac­cabi Tel Avi­ví um­spil fyrir út­sláttar­keppni Sam­bands­deildarinnar tíma­bilið 2021/22.

Átta ár eru síðan að Maccabi Tel Aviv mætti Chelsea í riðlakeppni Meistaradeildar EvrópuVísir/EPA

Mac­cabi Tel Aviv fór í gegnum þrjár um­ferðir í undan­keppni Sam­bands­deildarinnar fyrr í sumar og bar þar sigur úr býtum í ein­vígum sínum gegn Petrocub, AEK og nú síðast Celje.

Með ref fram á við sem hatar ekki að skora mörk

Einn af þeim leik­mönnum Mac­cabi Tel Aviv sem leik­menn Breiða­bliks verða að hafa góðar gætur á er marka­hrókurinn reyndi, Eran Za­havi fyrir­liði Mac­cabi Tel Aviv.

Þrátt fyrir að vera orðinn 36 ára gamall hefur Za­havi sýnt það undan­farið að hann býr yfir ein­stak­lings­gæðum sem geta gert út um leiki.

Nú þegar á yfir­standandi tíma­bili er Za­havi búinn að koma að átta mörkum í átta leikjum, skora sjö og leggja upp eitt.

Zahavi í leik með Maccabi Tel Aviv á dögunumMynd: Maccabi Tel Aviv

Þessi þaul­reyndi leik­maður er markahæsti leikmaður ísraelska landsliðsins frá upphafi. Zahavi, sem hefur lagt landsliðsskóna á hilluna, spilaði alls 70 A-lands­leiki og skoraði 33 mörk fyrir lands­lið Ísrael.

Zahavi hefur í gegnum sinn feril, með liðum á borð við Paler­mo, PSV Eind­hoven, Guangz­hou City sem og Hapoel- og Mac­cabi Tel Aviv, komist í vana með það að raða inn mörkum.

555 leikir á at­vinnu­manna­stigi, 329 mörk og 92 stoð­sendingar er töl­fræðin sem býr að baki spila­mennsku Za­havi.

Á síðasta tíma­bili fór hann fyrir liði Mac­cabi Tel Aviv, skoraði 26 mörk í 40 leikjum og kom alls að 29 mörkum

Leikur Mac­cabi Tel Aviv og Breiða­bliks hefst klukkan sjö annað kvöld og verður sýndur í beinni út­sendingu á Voda­fone Sport. Við verðum á staðnum og færum ykkur allt það helsta frá Tel Aviv.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×