Rannsóknin mun standa yfir í 12 mánuði og leitast er eftir því að vekja athygli á neikvæðum áhrifum og aukaverkunum nikótínpúðanna. Rætt verður við fjölda leikmanna, starfsmenn innan félaganna og frammistaða leikmanna sem notast við púðana verður greind.
Umræða um nikótínpúða hefur aukist töluvert að undanförnu, en notkun þeirra er ekkert ný af nálinni ef marka má Arnar Þór Viðarsson, fyrrverandi landsliðsþjálfara.
Leikmannasamtökin í Bretlandi vilja það allra helst að leikmenn og aðrir sem koma að knattspyrnu geri sér fulla grein fyrir slæmum afleiðingum sem fylgja notkun nikótínpúða.
„Ég veit ekki hvernig er hægt að berjast gegn þessu. Þetta er ekki á listanum yfir ólögleg efni svo það er ekki hægt að banna leikmönnum þetta. En á sama tíma, ef ég myndi labba inn á æfingasvæðið með sígarettur í höndinni teldist það ófagmannlegt og liti ansi illa út. Snus er ekkert öðruvísi, jafnmikið magn af nikótíni fer inn í líkamann, það er bara falið“ sagði Lee Johnson, þjálfari Fleetwood Town og fyrrum leikmaður á Englandi.
Skýrt skal tekið fram að notkun nikótínpúða er að öllu leyti lögleg í Bretlandi og leikmenn sem notast við slíka púða brjóta engar lyfjaneyslureglur. Markmið samtakanna með þessari rannsókn er að huga að velferð leikmanna.