Áður hafði fyrirvörum um meðal annars áreiðanleikakönnun og sölu á rekstri Gallup á Íslandi til þriðja aðila verið aflétt. Sýn mun fá Já afhent innan fjórtán daga og mun greiðsla kaupverðs fara fram á afhendingardegi.
Með sáttinni hefur Samkeppniseftirlitið samþykkt ákveðnar aðgerðir sem Sýn hefur lagt til, einkum með það að markmiði að koma til móts við möguleg áhrif á virka samkeppni um miðlun símakrárupplýsinga úr númera- og vistfangaskrá fjarskiptafyrirtækja, sem samruninn gæti valdið.
Áætluð óbreytt áhrif reksturs Já á Sýn er um 500 milljón króna velta og 70 milljón króna EBITDA, að því er segir í tilkynningu.
„Það veitir okkur mikla ánægju að geta tilkynnt að öllum skilyrðum fyrir kaupum á Já er nú fullnægt,“ segir Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar, í tilkynningu.
„Eftir afhendingu hefst nýr kafli í vegferð Sýnar á vefmiðlum þar sem við munum byggja ofan á þá styrkleika sem Já er þekkt fyrir. Miklar breytingar eru að verða á auglýsingamarkaði en auglýsingamiðlar Sýnar, Vísir og Bylgjan eru leiðandi á sínum mörkuðum og með samþættingu við Já mun vöruframboðið styrkjast enn frekar. Þá verður með kaupunum til ný tekjustoð í þjónustu við fyrirtæki og einstaklinga m.a. í kringum sýnileika og sölutorg.“
Vilborg Helga Harðardóttir er forstjóri Já.
„Við erum full tilhlökkunar yfir að ganga nú til liðs við Sýn og takast á við þau fjölmörgu tækifæri sem við sjáum í því að sameina krafta Já og annarra eininga Sýnar, ekki síst Vísis.“
Ráðgjafar seljanda voru Arctica Finance og LMG Lögmenn og ráðgjafi kaupanda var Landslög.
Vísir er í eigu Sýnar.