„Já, í nótt hefst mikil skjálftahrina víða á Reykjanesskaga. Þetta eru fyrst og fremst mjög litlir skjálftar sem við höfum verið að mæla bæði norðvestan við Þorbjörn en einnig við Fagradalsfjall, talsverður fjöldi. Og svo hrekkur þessi skjálfti, 3,9 að stærð í gang klukkan 5:35 í morgun sem finnst mjög vel í Grindavík og víðar á Suðurnesjum,“ segir Einar í samtali við fréttastofu.
Er þessi stærri en verið hefur?
„Nei, hann er með sama móti og jarðskjálftahrinur sem hafa verið þarna en það sem er óvenjulegt er þessi stóri skjálfti nærri byggð. Jarðskjálftahrinan stendur enn yfir og við fylgjumst vel með og reynum að rýna í þetta.“
Og svo var stór skjálfti við Bárðabungu í gær?
„Já, það var skjálfti í gærkvöldi í Bárðarbungu klukkan 22:19 sem mældist 4,9 að stærð. Þetta er þriðji skjálftinn á þessu stærðarbili sem mælist þarna á árinu.“
Að sögn Einars stendur þessi skjálfti einn og sér og mælist ansi stór en fáir séu á hálendinu sem finni hann þó hann sé miklu stærri en skjálftarnir sem eru að skjóta Reyknesingum skelk í bringu.