Ummælin lét Murthy falla í hlaðvarpsþætti þar sem hann sagði meðal annars að framleiðni væri óvíða minni en á Indlandi. Hann sagði landið ekki myndu geta keppt við önnur ríki nema með aukinni framleiðni.
„Þannig er ósk mín sú að unga kynslóðin segi: Þetta er landið mitt. Ég vil vinna 70 stundir á viku.“
Ummælin fóru eins og eldur í sinu um netheima og sitt sýndist hverjum. Sumir lýstu yfir stuðningi við Murthy á meðan aðrir sögðu ummælin til marks um eitraða vinnustaðamenningu. Snýst umræðan öðrum þræði um hvaða kröfur atvinnurekendur geta gert til starfsmanna.
Gagnrýnendur hafa bæði bent á lág laun þeirra sem eru að byrja á vinnumarkaði og þann líkamlega og andlega toll sem mikil vinna hefur á einstaklinginn.
„Enginn tími fyrir félagslíf, enginn tími fyrir fjölskyldu, enginn tími til að hreyfa sig, enginn frítími. Svo ekki sé minnst á að fyrirtæki ætlast til þess að fólk svari tölvupóstum og símtölum utan vinnu. Undra sig svo á því að ungt fólk sé að fá hjartaáfall,“ sagði hjartalæknirinn Deepak Krishnamurthy á X, áður Twitter.
Sumir bentu á að flestar konur ynnu yfir 70 stundir á viku, utan og innan heimilisins.
Alþjóðavinnumálastofnunin sagði í skýrslu í fyrra að fyrirtæki sem stuðluðu að jafnvægi milli vinnu og frítíma sýndu meiri framleiðni. Þá væri auðveldara að ráða og halda í starfsfólk og fjarverur færri.
Indverjar vinna nú þegar fleiri vinnustundir en aðrar þjóðir, til að mynda Bandaríkjamenn, Þjóðverjar og Brasilíumenn, eða um 2.000 stundir á ári að meðaltali.
„Að auka framleiðni snýst ekki bara um að vinna fleiri vinnustundir,“ sagði frumkvöðullinn og kvikmyndaframleiðandinn Ronnie Screwvala á X. „Það snýst um að verða betri í því sem þú gerir, auka þekkingu, stuðla að jákvæðu starfsumhverfi og borga sanngjörn laun fyrir unnin störf.“