Skæruliðasamtökin ELN hafa ekki enn staðið við loforð sitt um að láta föður Díaz, Luis Manuel, lausan. Honum og eiginkonu hans, Cilenis Marulanda, var rænt um þarsíðustu helgi en henni var bjargað fljótlega.
ELN hefur sakað stjórnvöld í Kólumbíu um að gera þeim erfitt fyrir að láta Luis Manuel lausan með því að vera með fjölmennt lið í Perija fjöllunum við landamæri Kólumbíu og Venesúela. ELN vildi fá tryggingu fyrir því þeir yrðu öruggir þegar þeir slepptu Luis Manuel úr haldi.
Stjórnvöld urðu við beiðni ELN en þrátt fyrir það hefur Luis Manuel ekki enn verið sleppt úr haldi samtakanna. Og fjölskylda hans hefur miklar áhyggjur af honum og vill fá sönnun fyrir því að hann sé á lífi.
„Mest af öllu viljum við fá sönnun með því að sjá hann og vita í hvaða stöðu hann er. Faðir minn er hér og hann vill sjá son sinn,“ sagði Gabi, bróðir Luis Manuel.
Ekki er vitað hvort ELN krefjist lausnargjalds fyrir Luis Manuel. Það verður þó að teljast líklegt þar sem samtökin sleppa venjulega ekki gíslum nema gegn hárri peningagreiðslu.
Þrátt fyrir að faðir hans sé enn í haldi mannræningja spilaði Díaz og skoraði jöfnunarmark Liverpool gegn Luton Town í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. Eftir leikinn biðlaði Díaz til ELN að láta föður sinn lausan.