Lífið

Fyrir­tæki De Niro gert að greiða að­stoðar­manni hans 170 milljónir

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
De Niro fyrir utan dómssal í gær.
De Niro fyrir utan dómssal í gær. AP

Canal Productions, fyrirtæki Roberts De Niro, var í dag dæmt til að greiða fyrrverandi aðstoðarkonu hans 170 milljónir króna í skaðabætur fyrir illa meðferð og kynjamismunun.

Graham Chase Robinson, sem starfaði sem aðstoðarkona De Niro frá 2008 til 2019, hefur sakað hann um illa meðferð en þrátt fyrir að hafa verið titluð varaforseti framleiðslu og fjármála hjá framleiðslufyrirtæki De Niro, Canal Productions, og verið með rúmar 40 milljónir í árslaun sinnti hún ýmsum hversdagslegum störfum fyrir leikarann.

Samkvæmt gögnum málsins sá Robinson meðal annars um að skreyta jólatré De Niro. Þá var hún um tíma skráð sem sá aðili sem hafa átti samband við í neyðartilfellum og var sú sem leikarinn hringdi í þegar hann datt niður stiga og þurfti að fara á spítala.

Robinson höfðaði mál gegn De Niro og konunni hans árið 2019, þegar hún hætti störfum hjá fyrirtækinu. Í vitnisburði sagði Robinson De Niro og Tiffany Chen, eiginkonu hans, hafa breytt starfinu hennar sem hún dýrkaði í martröð. 

Dómari sagði De Niro ekki persónulega ábyrgan fyrir slæmu meðferðinni og kynjamismununinni, en dæmdi fyrirtæki hans, Canal Productions, til þess að greiða Robinson alls 1,2 milljónir Bandaríkjadali í skaðabætur, sem nemur um 170 milljónum króna. Fyrirtækið þyrfti að greiða henni 632 þúsund dali í tvígang. 

Leikarinn mætti ekki í dómsal þegar dómurinn var kveðinn upp í dag. Lögmaður De Niro sagði lögfræðingateymi hans ætla að beita sér fyrir því að upphæðin sem Canal Productions greiði Robinson verði lækkuð. 

De Niro lét illum látum í réttarsal á dögunum þegar hann bar vitni í málinu. Hann hrópaði til að mynda „þetta er algjör vitleysa!“ og hækkaði tvisvar sinnum róminn þegar hann tók til varnar fyrir sig og kærustu sína. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.