Enski boltinn

Erfið fíkn kom fyrr­verandi mark­verði Liverpool næstum í gröfina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Chris Kirkland lék 45 leiki með Liverpool.
Chris Kirkland lék 45 leiki með Liverpool. getty/Alex Livesey

Chris Kirkland, fyrrverandi markvörður Liverpool, var háður verkjalyfinu Tramadol og fíknin varð honum næstum því að aldurtila.

Kirkland, sem lék með Liverpool á árunum 2001-06, hefur verið opinskár og ófeiminn að tjá sig um fíkn sína í Tramadol. Hann segist hafa verið á barmi þess að fremja sjálfsmorð og skammturinn sem hann tók af Tramadol á dag hafi verið ansi stór.

„Þegar ég fór í meðferð komst ég að því að ég var að taka það sem jafngilti því að sprauta sig sex sinnum með heróíni á dag. Þetta er djöfullegt, djöfullegt dóp. Þetta var nálægt því og hefði átt að drepa mig,“ sagði Kirkland.

„Fyrst lætur þetta þér líða vel, ef þú ert kvíðinn eða eitthvað svoleiðis. Ég notaði þetta við verkjum en aðallega við kvíða. En þetta fer illa með hausinn á þér. Eftir þrjá mánuði vissi ég að ég var í vandræðum, ég var orðinn háður því. Á endanum byggirðu upp svo mikið þol við því að þetta gerir nánast ekki neitt. Líkaminn þarf þetta bara því þú ert háður þessu.“

Kirkland tók Tramadol í síðasta sinn í apríl í fyrra. Við tóku fráhvörf sem hann lýsir sem afar erfiðum.

„Ég myndi ekki óska neinum þess að upplifa þessa 7-8 daga. Ég var með með ofskynjanir, í stöðugu svitakasti, kalt, ældi, verkjaði og var með krampa um allan líkamann. Ég svaf ekki í 5-6 daga. Konan mín svaf í næsta herbergi því ég var alltaf að velta mér og kom inn til að ganga úr skugga um að ég andaði,“ sagði Kirkland sem byrjaði að taka Tramadol þegar hann meiddist illa er hann lék með Sheffield Wednesday fyrir áratug.

Fyrr á þessu ári var greint frá því að Tramadol verði sett á bannlista Alþjóða lyfjaeftirlitsins (WADA).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×