Enski boltinn

Ratclif­fe ætlar að fá ráð hjá Sir Alex

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sir Jim Ratcliffe ætlar sér stóra hluti með Manchester United.
Sir Jim Ratcliffe ætlar sér stóra hluti með Manchester United. Peter Byrne/Getty Images

Búist er við því að Sir Jim Ratcliffe muni spyrja Sir Alex Ferguson ráða þegar kemur að því að umturna Manchester United en búist er við því að gengið verði frá kaupum Ratcliffe á 25 prósent eignarhlut í félaginu á næstu dögum.

Eftir að ljóst var að Glazer-fjölskyldan hygðist ekki selja Man United, þrátt fyrir að Ratcliffe og Sheikh Jassim frá Katar hafi ítrekað hækkað boð sín í enska knattspyrnufélagið, þá ákvað Ratcliffe að fara aðra leið.

Hann mun kaupa 25 prósent eignarhlut í félaginu og fær að sjá alfarið um knattspyrnuhliðina. Það virðist sem hann sé þegar byrjaður að taka til hendinni en á dögunum var tilkynnt að Richard Arnold myndi láta af störfum um árslok.

Enn á eftir að ganga frá kaupum Ratcliffe á fjórðungi félagsins en það breytir því ekki að fjölmiðlar á Bretlandseyjum fjalla um málið eins og það sé frágengið. The Telegraph greinir frá því að hinn 71 árs gamli Ratcliffe ætli að leita til Sir Alex Ferguson og fá hjá honum ráð um hvernig sé best að setja upp „knattspyrnuhlið“ félagsins.

Sir Alex þarf vart að kynna en hann stýrði Man United frá 1986 til 2013 og vann fjölda titla, þar af 13 Englandsmeistaratitla. Síðan hann setti þjálfaraúlpuna í skápinn hefur félagið ekki orðið enskur meistari.

Búast má við fleiri breytingum hjá Man United þar sem John Murtough er yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu eins og staðan er í dag en næsta öruggt er að Ratcliffe muni skipta honum út.

Man United situr í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sjö stigum minna en topplið Man City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×