Fótbolti

Dani Alves situr í fangelsi en fær 462 milljónir endur­greiddar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dani Alves var með brasilíska landsliðinu á HM í Katar í fyrra.
Dani Alves var með brasilíska landsliðinu á HM í Katar í fyrra. EPA-EFE/MARTIN DIVISEK

Spænski skatturinn þarf að endurgreiða brasilíska knattspyrnumanninum Dani Alves 3,2 milljónir evra eftir úrskurð hæstaréttar á Spáni.

Alves fær því 462 milljónir íslenskar krónur endurgreiddar frá skattaryfirvöldum á Spáni.

Brasilíumaðurinn hefur hins vegar setið í fangelsi í Barcelona síðan í janúar þar sem hann bíður eftir að málið hans fari fyrir dómstóla.

Alves hefur verið ákærður fyrir nauðgun á næturklúbbi í Barcelona 30. desember 2022 og dómarinn ákvað að hann yrði að dúsa í fangelsinu þar til málið verði tekið fyrir.

Alves hafði haldið því fram að hafa gefið allt upp til spænska skattsins varðandi notkun á ímynd sinni á tímabilunum 2009-10 og 2010-11 eða þegar hann var leikmaður Barcelona.

Spænski skatturinn fór að rannsaka mál Alves árið 2014 og töldu menn þar á bæ að hann hafi greitt of lítið í skatt.

Alveg hafði selt ímyndarrétt sinn til fyrirtækisins Cedro Sports áður en hann kom til Barcelona en fyrirtækið átti hann með fyrrum konu sinni og þáverandi umboðsmanni Dinorah Santana Da Silva.

Vörn Alves var að hann hafi farið eftir lögum og að 85 prósent greiðslna frá Barcelona hafi verið laun til hans en 15 prósent hafi síðan farið Cedro Sports í formi ímyndaréttar. Hæstiréttur samþykkti það og skatturinn skuldar nú Alves.

Dani Alves hefur unnið 45 titla á fótboltaferlinum sem er það mesta í sögunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×