Hér má sjá viðtalið við Sól í heild sinni:
Víkingaaðferðir, vinkonur og sterkar rætur
Hönnunin heillaði Sól í æsku og fannst henni spennandi að hugsa til þess að geta fundið upp á einhverju og búið eitthvað til. Fatahönnunardraumurinn kom síðar en hún fékk sína fyrstu saumavél í kringum fermingu og saumar enn í dag allt sjálf í sinni hönnun.
„Ég elska eiginlega bara allt við hönnunarferlið og ég elska að vinna með höndunum.“
Sól útskrifaðist með meistarapróf úr listaháskólanum Central Saint Martins í London en þurfti þó að klára skólann hér heima sökum Covid.
Hún stefnir á að fara alfarið út með hönnun sína en þykir þó vænt um rætur sínar hér heima, þar sem hún notast meðal annars við efnivið úr sveitabæ fjölskyldunnar og hefur nýtt sér ævafornar íslenskar aðferðir við hönnun. Má þar nefna pils sem Sól gerði með góðri vinkonu sinni Siggu Fanneyju sem er textílhönnuður.
„Pilsið er handofið af okkur út frá gamalli íslenskri aðferð sem heitir Röggvarfeldur, þar sem þú ert að vefa efni og þú hendir reglulega í vefnaðinn hráum lokkum af ull og býrð til einhvers konar gervifeld.
Þetta er alíslensk aðferð sem var notuð á Víkingatímum. Pilsið var hluti af lokalínunni minni í skólanum og mér þykir alltaf svolítið vænt um þetta. Líka af því okkur gekk svo vel að vinna saman og hún er ótrúlega klár í textíl, ég kann ekki að búa til textíl,“ segir Sól en í gegnum viðtalið nefnir hún mikilvægi þess að geta unnið með góðum konum.

Ull og hestahár frá fjölskyldubænum
„Mér þykir líka vænt um pilsið af því þetta er íslensk aðferð og þetta er ull úr fjölskyldusveitinni minni undir Eyjafjöllum sem heitir Raufarfell. Þar eru pabbi með bæ sem og og bróðir pabba, hann er sauðfjárbóndi og ég er einmitt með ótrúlega mikið af ull frá honum inni í geymslu sem ég held áfram að nýta.“
Efniviðurinn er því svolítið sterk og einstök tenging við hennar rætur.
„Svo er ég líka með hesthár inni í stúdíóinu mínu frá hestunum hans pabba. Það þarf reglulega að trimma hárið á þeim annars eru þeir með of mikið hár þannig að ég fæ stundum hjá honum, segir Sól sem hefur nýtt hesthárin á ýmsan skapandi hátt.“
Sól notast við umhverfisvænar leiðir í hönnun sinni þar sem ekkert efni fer til spillis en hún fær meðal annars afgangs efni frá tískuhúsum og stórfyrirtækjum sem væru annars ekki nýtt. Þá er hún einnig að náttúrulita flíkurnar sem hún gerir meðal annars með svartbaunum.