Enski boltinn

Lineker með sam­visku­bit: Þetta er að eyði­leggja leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gary Lineker segist vera búinn að sjá nóg og hefur skipt um skoðun varðandi myndbandadómgæslu.
Gary Lineker segist vera búinn að sjá nóg og hefur skipt um skoðun varðandi myndbandadómgæslu. Getty/Hollie Adams

Knattspyrnugoðsögnin og sjónvarpssérfræðingurinn Gary Lineker hefur verið ötull talsmaður myndbandsdómgæslu í gegnum tíðina en nú virðist hann vera búinn að sjá nóg af vitleysu og mistökum með útfærslu VAR.

Lineker er umsjónarmaður „Match of the Day“ þáttarins hjá breska ríkissjónvarpinu og var mjög pirraður eftir að farið var yfir leik Aston Villa og Arsenal um helgina.

Ástæðan að þessu sinni var mark sem var dæmt af Kai Havertz undir lok leiksins þegar hann virtist hafa jafnað metin og tryggt Arsenal stig.

Markið var dæmt af vegna hendi sem var vissulega rétt en boltinn fór áður í hendi varnarmanns. Það var hins vegar ekki dæmt víti.

„Varnarmenn mega koma óvart við boltann með hendinni en ekki framherjar. Af hverju erum við að reyna að koma í veg fyrir mörk,“ spurði Gary Lineker.

„Af hverju er fólkið sem býr til lögin í leiknum að gera þetta. Þetta er fáránlegt,“ sagði Lineker. Ian Wright var með honum í myndverinu og tók undir það að fótboltalögin væru stundum út í hött.

„Ég verð bara að segja núna að ég er ekki hrifinn af VAR lengur. Ég var einn af þeim sem talaði fyrir því að fá VAR en ég hef samviskubit yfir því núna þar sem ég hafði hreinlega rangt fyrir mér,“ sagði Lineker.

„Þetta er að eyðileggja leikinn,“ sagði Lineker. Það má sjá myndbrot hér fyrir neðan ef það birtist ekki er góð leið að endurhlaða fréttina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×