Teixeira birti tugi mynda af leynilegum skjölum á spjallborði í samskiptaforritinu Discord í nokkra mánuði, áður en upp um hann komst og hann var handtekinn í apríl.
Hann vann hjá leyniþjónustudeild flugþjóðvarðaliðs Bandaríkjanna, sem tekur við leynilegum upplýsingum úr ýmsum áttum og gerir úr því kynningarefni fyrir æðstu yfirmenn herafla Bandaríkjanna og ráðamenn. Teixeirea vann við viðhald á tölvukerfi deildarinnar en hann mun hafa tekið myndir af þessu kynningarefni og skrifað það niður og birt á Discord til að ganga í augun á vinnum sínum þar.
Sjá einnig: Teixeira sagði það „töff“ að vita meira en aðrir
Flugherinn sendi skýrslu um rannsóknina til bandaríska þingsins í dag. Þar eru yfirmenn Teixeira gagnrýndir fyrir að hafa ekki takmarkað aðgang hans að leynilegu efni og fyrir að hafa ekki gert viðvart þegar upp komst um að hann hefði verið að taka myndir af leynilegum gögnum.
Aðrir meðlimir í sveit Teixeira sögðu frá því við rannsóknina að allt að fjórum sinnum hefði komist upp um Teixeira. Þetta var ekki tilkynnt upp skipanakeðjuna eins og yfirmönnum Teixeira bar að gera, því þeir óttuðust að brugðist yrði of harkalega við.
Þetta gerði Teixeira kleift að dreifa hundruðum mynda af leynilegum gögnum á netinu.
Í frétt Washington Post um skýrsluna segir að þó rannsókn flughersins hafi verið lokið í ágúst, hafi skýrslan verið send þinginu í dag vegna ítarlegrar rannsóknar miðilsins á Discord-lekanum en fyrsta fréttin úr þeirri rannsókn birtist á morgun.
Rannsóknin leiddi meðal annars í ljós að Teixeira var oft á næturvöktum, með aðeins tveimur öðrum í byggingunni og voru þeir undir litlu eftirliti. Þá var ekkert eftirlit með því hvað verið var að prenta í húsnæðinu og hvað gert var við útprentað efni.
Meðal þeirra fimmtán sem refsað var er ofursti en sá lægst setti er liðþjálfi. Refsingarnar hófust í september og voru nokkrir færðir úr starfi og aðrir fengu áminningu. Ofurstinn Sean Riley, sem var yfir herdeild Texeira, var rekinn úr starfi.
Blaðamenn Washington Post komu höndum yfir gögn um að Teixeira hefði verið vikið úr menntaskóla vegna ógnandi hegðunar og orða um bensínsprengjur og skotvopn. Rannsókn flughersins sýndi fram á að við bakgrunnsskoðun hafi fundist vísbendingar um að Teixeira hefði átt að vera undir meira eftirliti en þær upplýsingar bárust ekki til yfirmanna hans.